Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist á fyrsta ársfjórðungi 76,5% sem er sama hlutfallið og mældist á sama ársfjórðungi 2020. Aðeins þrisvar áður frá upphafi mælinga hefur atvinnuþátttaka samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands verið lægri en 77%, á fjórða ársfjórðungi 2012 og fyrsta og fjórða ársfjórðungi 2020. Þessu fylgir einnig að hlutfall starfandi af mannfjölda er einnig með því lægsta sem mælst hefur.

Fjöldi starfandi á fyrsta ársfjórðungi 2021 var 185.600 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 70,7%. Frá fyrsta ársfjórðungi 2020 til fyrsta ársfjórðungs 2021 fækkaði starfandi fólki um 4.700 manns og hlutfall þess af mannfjölda lækkaði um 2,5 prósentustig. Hlutfall starfandi hefur aldrei mælst jafn lágt á fyrsta ársfjórðungi og er hlutfallið á meðal þriggja lægstu mælinga frá upphafi.

Hlutfall starfandi kvenna var 66,2% og starfandi karla 74,8%. Starfandi konum fækkaði um 3.100 og körlum um 1.500. Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 70,6% og utan höfuðborgarsvæðis 70,8%. Til samanburðar voru 199.200 starfandi á fyrsta ársfjórðungi 2020 og hlutfall af mannfjölda 73,2%. Hlutfall starfandi kvenna var þá 69,6% og starfandi karla 76,5%. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 74,3% og 71,1% utan höfuðborgarsvæðisins.

Styttri vinnuvika
Á fyrsta ársfjórðungi 2021 var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 36,6 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 32,3 stundir hjá konum og 39,9 stundir hjá körlum. Til samanburðar var meðalfjöldi vinnustunda 38,0 klukkustundir á fyrsta ársfjórðungi 2020, 33,6 stundir hjá konum og 41,6 stundir hjá körlum. Hvort sem ástæða samdráttar á vinnustundum á milli ára er vegna Covid-19 eða styttingu vinnuvikunnar unnu þeir sem voru við vinnu að jafnaði 1,4 stundum styttri vinnuviku nú en árið áður.

Starfandi fólk vann að jafnaði 37,6 klukkustundir í venjulegri viku á fyrsta ársfjórðungi 2021 samanborið við 38,1 stund á fyrsta ársfjórðungi 2020, óháð því hvort það var við vinnu í viðmiðunarvikunni eða ekki.

Fjarvistir vegna veikinda
Eins og fram hefur komið þá voru nokkrar breytingar gerðar á spurningalista vinnumarkaðsrannsóknar um síðastliðin áramót, sérstaklega er varðar vinnutíma fólks og ástæður fjarvista frá vinnu í viðmiðunarviku, eins og veikindi. Á fyrsta ársfjórðungi 2021 voru af öllum starfandi tæplega 15.100 manns frá vinnu í að minnsta kosti heilan eða hálfan dag vegna eigin veikinda, slyss eða tímabundinnar örorku eða 8,1% allra starfandi. Af konum voru 10,6% eitthvað fjarverandi frá vinnu og 6,2% karla. Af þessum hóp voru um 11.400 manns eitthvað við vinnu í viðmiðunarvikunni eða 75,3%. Flestir voru fjarverandi frá vinnu í einn dag eða 30,8%, næst flestir voru hins vegar ekkert við vinnu í viðmiðunarvikunni eða 23,3%.

Atvinnuleysi 7,7%
Á fyrsta ársfjórðungi 2021 töldust að meðaltali 15.400 manns vera atvinnulausir eða um 7,7% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Atvinnuleysi kvenna var 9,1% og karla 6,4%. Á sama ársfjórðungi voru um 3.500 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 1,9% starfa samanber áður útgefnar tölur. Til samanburðar voru um 8.700 einstaklingar atvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2020 og jókst atvinnuleysi um 3,3 prósentustig á milli ára.

Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 15,8% sem er veruleg hækkun frá árinu áður eða um sjö prósentustig. Á tímabilinu jókst atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um 2,8 prósentustig eða úr 4,3% í 7,1%. Atvinnuleysi jókst einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um 2,4 prósentustig, úr 2,0% á fyrsta ársfjórðungi 2020 í 4,4% á fyrsta ársfjórðungi 2021.

Fjöldi utan vinnumarkaðar stendur í stað
Á fyrsta ársfjórðungi 2021 voru 61.700 manns utan vinnumarkaðar eða 23,5% af mannfjölda 16-74 ára. Af konum voru 34.500, eða 27,8%, utan vinnumarkaðar og af körlum voru 27.200 utan vinnumarkaðar eða 20,0%. Segja má að þessar tölur standi í stað miðað við fyrsta ársfjórðung 2020.

Af þeim sem voru utan vinnumarkaðar á fyrsta ársfjórðungi 2021 voru flestir (18.800) á eftirlaunum eða 30,5%, 16.300 voru nemar (26,5%), 12.900 voru öryrkjar (20,9%) og 6.500 manns voru veikir eða tímabundið ófærir til vinnu (10,6%). Um 2.300 þeirra sem voru utan vinnumarkaðar töldu sig vera atvinnulausa eða 3,7%. Þessir einstaklingar teljast þó ekki atvinnulausir í niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar þar sem þeir uppfylla ekki skilyrði í skilgreiningu rannsóknarinnar á atvinnuleysi. Meginstaða þeirra sem eru utan vinnumarkaðar byggist á því hvernig þátttakandi vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar skilgreinir sjálfan sig. Um 2.900 manns voru heimavinnandi eða í fæðingarorlofi, eða 4,6%, og um 2.000 manns, eða 3,2%, skilgreindu stöðu sína með einhverjum öðrum hætti.

Aukin fjarvinna 25 til 64 ára
Á fyrsta ársfjórðungi 2021 unnu að jafnaði 47,1% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Þar af unnu 8,9% launafólks aðalstarf sitt venjulega í fjarvinnu heima en 38,2% launafólks unnu stundum í fjarvinnu. Þetta er aukning frá fyrra ári þegar 36,4% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára sinntu aðalstarfi að einhverju leyti í fjarvinnu heima, 4,9% unnu þá venjulega fjarvinnu og 31,5% stundum. Fjarvinna heima tekur aðeins til vinnu sem tengist aðalstarfi einstaklinga en ekki til heimilisstarfa eða annarra starfa heima við.

Þegar skoðaðar eru vinnustundir á fyrsta ársfjórðungi 2021 sést að launafólk á aldrinum 25 til 64 ára vann 37,7 klukkustundir að jafnaði í hverri viku. Þeir sem sinntu eitthvað fjarvinnu heima unnu 39,0 klukkustundir en þeir sem aldrei sinntu fjarvinnu heima unnu 36,6 klukkustundir. Til samanburðar vann launafólk á aldrinum 25 til 64 ára að jafnaði 40,9 klukkustundir á fyrsta ársfjórðungi 2020, þeir sem unnu eitthvað heima unnu 41,5 klukkustundir og þeir sem sinntu starfi sínu aldrei heima unnu 38,4 klukkustundir.

Á fyrsta ársfjórðungi 2020 vann launafólk, sem eitthvað vann fjarvinnu heima, að jafnaði 16,8 klukkustundir frá heimili sínu eða um 43,1% af unnum stundum sínum. Á fyrsta ársfjórðungi 2020 vann launafólk, sem eitthvað vann í fjarvinnu heima, 10,1 stund að jafnaði heima eða 25,1% af unnum stundum.

Talnaefni