Tilraunatölfræði


Hlutfallslegt misræmi menntunar

Samantekt

Misræmi menntunar (e. educational mismatch rate) er hlutfallslegur munur á menntunarstigi starfandi samanborið við annað hvort menntunarstig atvinnulausra eða þeirra sem eru utan vinnumarkaðar. Mælingin leiðir í ljós misræmi á milli menntunar þeirra sem eru starfandi og hinna sem eru atvinnulausir eða utan vinnumarkaðar. Mælingin segir til um hversu hátt hlutfall atvinnulausra (eða þeirra sem eru utan vinnumarkaðar) þarf að auka við menntun sína til þess að dreifing menntunar sé sambærileg við þá sem eru starfandi. Þannig sést hvort aukin menntun þeirra sem eru utan vinnumarkaðar eða atvinnulausir myndi auka samkeppnishæfni þeirra á vinnumarkaði.

Lýsing

Birtar eru upplýsingar um hlutfallslegt misræmi menntunar á meðal starfandi miðað við atvinnulausa og þá sem standa utan vinnumarkaðar byggt á gögnum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Menntun samkvæmt ÍSMENNT2011-flokkunarkerfinu er skipt í þrjá flokka: grunnmenntun (stig 1 2), framhaldsmenntun (stig 3-4) og háskólamenntun (stig 5-8). Misræmi menntunar lýsir mismuni á dreifingu menntunar hjá ólíkum hópum og segir til um hversu hátt hlutfall atvinnulausra eða þeirra sem eru utan vinnumarkaðar þarf að auka menntun sína til þess að hafa jafna menntun á við starfandi einstaklinga.

Markmið

Markmiðið er að gefa vísbendingu um mögulegt misræmi menntunar hjá atvinnulausum og þeim sem standa utan vinnumarkaðar miðað við þá sem eru starfandi. Þá er sérstaklega áhugavert að skoða hlutfallslegt misræmi menntunar á ólíkum tímabilum.

Hlutfallslegt misræmi menntunar á milli starfandi og atvinnulausra á bilinu 5,1% til 38,6%

Síðast uppfært: 19. nóvember 2020

Ársfjórðungslegt misræmi menntunar á milli starfandi og atvinnulausra hefur verið á bilinu 5,1% til 38,6% frá árinu 2003 (mynd 1). Misræmi menntunar var hæst í lok árs 2007 en náði lágmarki á þriðja ársfjórðungi 2015 sem byggist á því að á þeim tíma var aðeins smávægilegur munur á menntun atvinnulausra og menntun starfandi. Leitni hlutfallsins hefur haldist nokkuð stöðug frá upphafi árs 2014 á milli 15,7% og 18%. Á þriðja ársfjórðungi 2020 var misræmið 12,8% samanborið við 15,7% á þriðja ársfjórðungi 2019.

Hlutfallslegt misræmi menntunar milli starfandi og atvinnulausra 2003-2020

Á þriðja ársfjórðungi 2020 virðist hlutfallslegt misræmi menntunar hafa farið lækkandi á meðal atvinnulausra karla, var 8,2% miðað við 17,1% og 23,8% á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2020 (mynd 2). Ári áður, eða á þriðja ársfjórðungi 2019, var hlutfallið 12,1%. Hlutfallslegt misræmi menntunar á meðal atvinnulausra kvenna á þriðja ársfjórðungi 2020 var 20,2% samanborið við 19,6% á þriðja ársfjórðungi 2019.

Hlutfall misræmis menntunar starfandi og atvinnulausra 2003-2020

Hlutfall atvinnulausra á aldrinum 25-64 ára með grunnmenntun lækkaði úr 50,7% á fyrsta ársfjórðungi 2003 í 27,8% á þriðja ársfjórðungs 2020 (mynd 3). Á sama tímabili jókst hlutfall atvinnulausra með háskólamenntun úr 21,4% í 36,1% og hlutfall atvinnulausra með framhaldsmenntun úr 27,9% í 36,1%.

Rétt er að túlka varlega breytingar á menntun atvinnulausra þegar tekið er tillit til menntunarstöðu íbúa þar sem íbúum á aldrinum 25-64 ára, sem aðeins hafa grunnmenntun, hefur fækkað á tímabilinu og þeim sem hafa háskólamenntun fjölgað.

Hlutfallsleg skipting 25-64 ára sem eru atvinnulausir eftir menntunarstigi 2003-2020

Misræmi menntunar á milli starfandi og þeirra sem standa utan vinnumarkaðar hefur farið hækkandi frá árinu 2008

Þeir sem hvorki fullnægja skilyrðum til þess að teljast starfandi né eru atvinnulausir standa utan vinnumarkaðar. Misræmi menntunar á milli starfandi og þeirra sem standa utan vinnumarkaðar náði lágmarki á öðrum ársfjórðungi 2008 (15,6%) en fór hækkandi fram til ársloka 2019 (27,9%). Þetta bendir til þess að samsetning menntunar hafi breyst á milli starfandi og þeirra sem standa utan vinnumarkaðar.

Misræmi menntunar á milli starfandi kvenna og kvenna sem standa utan vinnumarkaðar hefur haldist nokkuð stöðugt frá árinu 2011 og fram á þriðja ársfjórðung 2020 þegar það var 29,6%. Hlutfallið er almennt hærra hjá konum en körlum.

Hlutfall þeirra sem standa utan vinnumarkaðar á aldrinum 25-64 ára og hafa grunnmenntun lækkaði úr 51,2% á fyrsta ársfjórðungi 2003 í 38,9% á þriðja ársfjórðungs 2020. Á sama tímabili jókst hlutfall einstaklinga sem standa utan vinnumarkaðar og eru með háskólamenntun úr 9,6% í 29,8% og hlutfall einstaklinga með framhaldsmenntun úr 39,2% í 31,3%.


Talnaefni

Hlutfallslegt misræmi menntunar eftir stöðu á vinnumarkaði 191120 (xlsx)


Lýsigögn

Um er að ræða ársfjórðungslegar tölur aftur til ársins 2003 sem byggja á gögnum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands (VMR) þar sem aflað er upplýsinga um vinnuaflið, störf, vinnutíma og atvinnuleit í samræmi við mælingar Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Í úrtaki vinnumarkaðsrannsóknar eru einstaklingar á aldrinum 16-74 ára sem skráðir eru í þjóðskrá, þ.e. sem eiga lögheimili á Íslandi. Notast var við skilgreiningar VMR á starfandi, atvinnulausum og einstaklingum utan vinnumarkaðar.

Starfandi: Einstaklingur telst starfandi hafi hann unnið a.m.k. eina klukkustund í viðmiðunarviku eða verið fjarverandi frá vinnu sem hann er ráðinn í.

Atvinnulaus: Einstaklingur telst atvinnulaus ef hann er án atvinnu í viðmiðunarviku sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, er að leita að vinnu og getur hafið störf innan tveggja vikna eða hefur fengið starf sem hefst innan 3 mánaða. Einstaklingar í námi flokkast sem atvinnulausir ef þeir uppfylla skilyrðin hér að framan.

Utan vinnumarkaðar: Einstaklingar sem hvorki fullnægja skilyrðum til að teljast starfandi né atvinnulausir.

Menntunarstaða (hæsta menntun sem einstaklingur hefur lokið) var flokkuð í samræmi við ÍSMENNT2011-flokkunarkerfið sem byggir á alþjóðlega flokkunarkerfinu ISCED2011. Menntunarstigum var skipt í þrjá flokka: grunnmenntun (stig 1 2), framhaldsmenntun (stig 3-4) og háskólamenntun (stig 5-8).

Hlutfallslegt misræmi menntunar segir til um mismun á dreifingu menntunnar á milli tveggja hópa. Misræmi menntunar á milli atvinnulausra og starfandi er reiknað með þessum hætti:

Formúla 1

Misræmi menntunar á milli þeirra sem standa utan vinnumarkaðar og starfandi er reiknað með þessum hætti:

Formúla 2


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1038. Netfang: ragnhildur.g.finnbjornsdottir@hagstofa.is