Tilraunatölfræði


Gjaldþrot og virkni fyrirtækja

Samantekt

Hagstofa Íslands gefur út tölur um gjaldþrot skráðra fyrirtækja í hverjum mánuði og birtast þær að jafnaði 30 dögum eftir að mánuði lýkur, en þá hefur stærstur hluti gjaldþrotabeiðna verið skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins. Ljóst er að hluti fyrirtækja sem tekin eru til gjaldþrotaskipta hafa haft lítil umsvif síðustu misseri. Til að varpa betri mynd á hvaða áhrif gjaldþrot hefur fyrir vinnumarkað og efnahagslíf eru hér birtar upplýsingar um meðalfjölda launþega og veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum á síðasta heila rekstrarári áður en fyrirtæki var tekið til gjaldþrotaskipta.

Lýsing

Gjaldþrot eru skráð í fyrirtækjaskrá Skattsins í kjölfar þess að auglýsing um gjaldþrotabeiðni er birt í Lögbirtingablaðinu. Þar sem hluti gjaldþrotabeiðna kemur til vegna fyrirtækja sem ekki hafa verið virk í einhver ár, eða jafnvel aldrei (s.s. vegna uppsafnaðs útvarpsgjalds), gefur fjöldi gjaldþrota skráðra fyrirtækja ekki endilega rétta mynd af áhrifum þeirra á vinnumarkað og efnahagslíf. Því eru upplýsingar um gjaldþrotabeiðnir skv. fyrirtækjaskrá Skattsins keyrðar saman við tímanlegustu rekstrarupplýsingar árið fyrir gjaldþrot, meðalfjölda launþega og veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.

Markmið

Vonast er til að birting á upplýsingum um virkni þeirra fyrirtækja sem tekin eru til gjaldþrotaskipta gefi áreiðanlegri fyrstu mynd af áhrifum gjaldþrota á vinnumarkað og efnahagslíf en unnt er að fá af fjölda gjaldþrotabeiðna skráðra fyrirtækja.

Gjaldþrotum virkra fyrirtækja fjölgaði um 42% á tímabilinu apríl til júlí

Síðast uppfært: 27. ágúst 2020

Samtals voru 52 fyrirtæki, sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins, tekin til gjaldþrotaskipta í júlí síðastliðnum. Af þeim voru 29 með virkni árið 2019, það er annaðhvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.

Á síðustu 4 mánuðum, eða frá apríl til júlí, voru 285 fyrirtæki lýst gjaldþrota. Af þeim voru 153 virk á fyrra ári sem er 42% fleiri en þau voru á sama tímabili árið 2019. Þar af voru 40 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 22 í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, 46 í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 45 í öðrum atvinnugreinum.

Fyrirtæki sem urðu gjaldþrota á tímabilinu frá apríl til júlí voru með um 1320 launþega að jafnaði árið 2019, þar af voru um 530 launþegar á fyrra ári í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og um 550 í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Þetta er 50% aukning frá fjölda launþega fyrirtækja sem urðu gjaldþrota á sama tímabili árið 2019 og svipaðar tölur og sömu mánuði árið 2010. Covid-19-faraldurinn á Íslandi fór að gera vart við sig um mánaðamótin febrúar-mars og var í apríl brostinn á af fullum þunga.


Gjaldþrot


Talnaefni

Gjaldþrot og virkni fyrirtækja eftir mánuðum 2009-2020 (xlsx)

Upplýsingar um gjaldþrot skráðra fyrirtækja er að finna í töflunni: Gjaldþrot fyrirtækja eftir mánuðum og bálkum atvinnugreina 2008-2020


Lýsigögn

Gjaldþrot og virkni fyrirtækja - tt