Tilraunatölfræði


Staða ungmenna á Íslandi 2005-2018

Samantekt

Hagstofa Íslands birtir í fyrsta sinn tilraunatölfræði um stöðu ungmenna á aldrinum 16 – 19. Hingað til hafa tölur um stöðu ungmenna, sem svokallað NEET-hlutfall (Not in Education, Employment or Training), verið birtar á grunni vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Þær tölur gefa hins vegar ekki möguleika á nákvæmu niðurbroti, til dæmis á einstök aldursár og eftir uppruna eða búsetu líkt og þessar tölur gera. Birtingin er hluti af samstarfsverkefni Hagstofunnar og félagsmálaráðuneytisins um félagsvísa.

Lýsing

Tölurnar eru unnar á grundvelli skráargagna Hagstofunnar; staðgreiðslugögnum, mannfjöldagögnum og menntagögnum. Tilgangurinn er að kanna stöðu ungmenna og ekki síður skoða að hvaða marki hægt er að nýta tiltæk gögn Hagstofunnar til þess að flokka stöðu ungmenna á þessum aldri.

Í þessum tölum er stöðu ungmenna skipt í þrennt: Þau sem eru starfandi samkvæmt skrám (þar sem byggt er á staðgreiðslugögnum frá Skattinum), þau sem eru í námi samkvæmt skráningum í nemendagögnum Hagstofunnar og þau sem hvorki eru starfandi né í námi en þau flokkast saman og eru afgangsstærð.

Markmið

Með því að vinna tölur um stöðu ungmenna á grunni skráargagna er mögulegt að greina tölurnar eftir fleiri bakgrunnsbreytum en áður hefur verið mögulegt. Markmiðið er því að birta nákvæmara niðurbrot fyrir notendur.

Fjölgar í hópi ungmenna sem hvorki eru starfandi né í námi

Síðast uppfært: 6. ágúst 2020

Alls voru 1.164 ungmenni á aldrinum 16 – 19 ára hvorki starfandi né í námi í nóvember árið 2018 og hafði þeim fjölgað úr 986 árið áður.

Milli áranna 2017 og 2018 jókst hlutfall ungmenna á aldrinum 16 – 19 ára sem hvorki voru starfandi né í námi. Mest var aukningin á meðal 19 ára ungmenna eða úr 8,1% árið 2017 í 10,8% árið 2018. Leita þarf aftur til ársins 2009 til þess að finna viðlíka hlutfall ungmenna á þessum aldri sem hvorki var starfandi né í námi en þá átti það við um 11,7% í þessum aldurshópi.

Mynd

Þegar horft er yfir tímabilið í heild sinni kemur í ljós að hlutfall ungmenna sem hvorki voru í námi né starfandi var hæst á Suðurnesjum eða 9,6% en næst hæst var hlutfallið á Suðurlandi eða 6,7%. Hlutfallið var hæst á Suðurnesjum á árunum 2008 og 2009 þegar það var rúmlega 13% hvort ár fyrir sig en hefur síðan farið lækkandi.


Mynd


Talnaefni

Staða ungmenna 2005-2018 (xlsx)


Lýsigögn

Um er að ræða árlegar tölur fyrir árin 2005 – 2018. Miðað er við stöðu ungmenna í nóvember hvert ár. Er það í samræmi við það með hvaða hætti hliðstæðar tölur eru unnar á hinum Norðurlöndunum.

Þýðið eru öll ungmenni búsett á landinu í nóvember ár hvert. Öllum talningum lægri en 4 er eytt úr birtum gögnum.


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1281. Netfang: Anton.Karlsson@hagstofa.is