Árlega er framkvæmd rannsókn á lífskjörum fólks á Íslandi þar sem hátt í 5.000 manns eru valdir í úrtak úr Þjóðskrá. Hagstofa Íslands hefur rannsakað lífskjör hér á landi frá árinu 2004 og er rannsóknin hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Lífskjararannsóknin er langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hvern og einn 4 ár í röð. Með því er verið að skoða breytingar á lífskjörum á milli ára.

Lífskjararannsóknin er heimilisrannsókn sem gefur heildarmynd af dreifingu lífskjara eftir ólíkum hópum fólks á Íslandi. Flestar spurningar eru um húsnæði, efnahag, heilsufar og stöðu á vinnumarkaði en einnig eru nokkrar spurningar um stöðu annarra heimilismanna.