Einstaklingar

Má Hagstofan safna persónuupplýsingum frá einstaklingum?
Já, í lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð er kveðið á um að Hagstofan skuli eins og kostur er afla nauðsynlegra hagskýrslugagna um einstaklinga úr opinberum skrám, en sé að öðru leyti heimilt að afla persónubundinna upplýsinga beint frá einstaklingum.

Af hverju er Hagstofan að hafa samband við mig þó ég sé bannmerkt/ur í Þjóðskrá?
Bannmerking í þjóðskrá nær til beinnar markaðssetningar þar sem markmiðið er að selja eða bjóða vörur eða þjónustu. Samfélagslega mikilvæg starfsemi, s.s. vísindarannsóknir og hagskýrslugerð, eru undanþegnar bannmerkingu þjóðskrár.

Má Hagstofan safna persónuupplýsingum úr stjórnsýsluskrám?
Já, í lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð er sérstaklega kveðið á um að Hagstofunni sé heimilt að tengja saman eigin skrár og skrár frá öðrum aðilum með upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila á grundvelli kennitölu eða annars auðkennis.

Veitir Hagstofan aðgang að persónuupplýsingum?
Nei, Hagstofunni er einungis heimilt að veita aðgang að persónuupplýsingum vegna viðurkenndra rannsókna eða vegna samstarfs við alþjóðlegar stofnanir innan evrópska hagskýrslusamstarfsins. Ströng skilyrði eru sett fyrir aðgangi að persónugögnum í báðum tilfellum. Áður en aðgangur er veittur eru bein auðkenni fjarlægð úr gögnunum og óbein auðkenni fjarlægð eða dulin, eftir því sem mögulegt er og þannig að fyllsta öryggis sé ávallt gætt.

Má ég fá upplýsingar um mig úr gagnagrunnum Hagstofunnar?
Nei, hagskýrslustofnanir eru undanþegnar almennum reglum um afhendingu gagna samkvæmt 15. grein persónuverndarreglugerðar. Til að geta unnið upplýsingar með ópersónugreinanlegum hætti er illgerlegt að afhenda upplýsingar um tilgreinda einstaklinga.

Get ég leiðrétt, eða látið eyða upplýsingum um mig í gagnagrunnum Hagstofunnar?
Á meðan söfnun persónuupplýsinga beint frá einstaklingum stendur yfir er mögulegt að koma leiðréttingum eða ósk um eyðingu fyrri svara á framfæri og verður Hagstofan við því. Eftir að vinnsla gagna er hafin og persónuauðkenni afmáð er ekki unnt að eyða eða breyta gögnunum. Persónuupplýsingum sem safnað er úr skrám, frá fyrirtækjum eða stofnunum verður ekki eytt eða breytt af Hagstofunni að beiðni einstaklinga sem gögnin ná til. Ábyrgð á heilleika þeirra gagna liggur hjá viðkomandi fyrirtækjum eða stofnunum.

Hvert á ég að leita til að fá frekari upplýsingar?
Persónuverndarfulltrúi Hagstofunnar veitir ráðgjöf og upplýsingar til starfsmanna, samstarfsaðila og gagnaveitenda og fylgir því eftir að farið sé að persónuverndarlögum í allri vinnslu Hagstofunnar. Persónuverndarfulltrúi er jafnframt tengiliður Hagstofunnar við Persónuvernd. Hægt er að koma ábendingum og fyrirspurnum um persónuverndarmál með tölvupósti á personuvernd@hagstofa.is.  

Fyrirtæki og stofnanir

Má Hagstofan fá persónugreinanleg gögn?
Já. Hagstofan hefur heimild til að sækjast eftir persónugreinanlegum gögnum samkvæmt lögum um Hagstofuna og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007, enda séu málefnalegar ástæður fyrir því að slíkra gagna sé aflað. Hagstofulögin setja ríkar skyldur á herðar Hagstofunnar að gæta slíkra trúnaðargagna og koma í veg fyrir að hægt sé að rekja útgefin gögn til tiltekinna einstaklinga með beinum eða óbeinum hætti.

Þarf að tilkynna skjólstæðingum stofnunarinnar eða viðskiptavinum að Hagstofunni hafi verið afhent gögn um þá?
Nei, þess gerist ekki þörf. Gagnanna er aflað einvörðungu í þeim tilgangi að taka saman hagskýrslur samkvæmt skýrum lagaheimildum. Ekki er leyfilegt að nýta gögnin til að hafa bein áhrif á stöðu, réttindi eða skyldur einstaklinganna, hvað þá að ljóstra upp um hagi tiltekinna einstaklinga.

Hvernig fer Hagstofan með persónugreinanleg gögn í gagnagrunnum sínum?
Öryggi gagna á Hagstofunni er tryggt eins rækilega og unnt er. Stjórnkerfi Hagstofunnar á upplýsingaöryggi er vottað reglulega skv. ISO-27001 staðlinum, þá eru í gildi reglur um meðferð trúnaðargagna innanhúss, alþjóðlegar reglur um meðferð trúnaðargagna sem Hagstofunni ber að virða, þagnarskylda starfsmanna og loks refsiákvæði í Hagstofulögunum sé út af brugðið.

Hagstofustarfsmenn vinna ekki með kennitölur og nöfn lengur en nauðsynlegt er vegna hreinsunar og leiðréttingar, eftir það eru slík persónuauðkenni afmáð og unnið með innanhússauðkenni í staðinn.

Hvað er gert við gögnin?

Hagskýrslugerð
Helsti tilgangur allrar gagnasöfnunar Hagstofunnar er að vinna og birta hagtölur. Hagtölur eru opinberar, tölulegar upplýsingar um samfélagið sem birtar eru af opinberum hagskýrslustofnunum. Hagtölur sem fjalla um einstaklinga, heimili eða fjölskyldur eru jafnan birtar sem samantekin tölugildi. Samkvæmt lögum má Hagstofan ekki birta upplýsingar sem verða raktar til tilgreindra einstaklinga nema augljóst sé að slíkar upplýsingar þurfi ekki að fara leynt. Birting hagtalna á vegum Hagstofunnar fer fram í gegnum vef stofnunarinnar.

Alþjóðlegar skuldbindingar
Í samræmi við formlega stöðu Hagstofunnar sem miðstöð hagskýrslugerðar á Íslandi sinnir stofnunin upplýsingagjöf og gagnaskilum til ýmissa alþjóðastofnana á borð við OECD, Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðavinnumálastofnunina og hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat). Gögnin sem Hagstofan skilar geta verið á formi hagtalna, samandreginna niðurstaðna eða örgögn án beinnar auðkenningar. Öll upplýsingagjöf og gagnaskil Hagstofu til alþjóðastofnana er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.

Evrópusamstarf
Í evrópskri hagskýrslugerð geta hagstofur Evrópulandanna skipst á trúnaðargögnum ef tilgangurinn er að bæta evrópska hagskýrslugerð og um það sé mælt í lögum. Strangar reglur gilda um meðhöndlun slíkra gagna, en nánar er kveðið á um hana í 21. gr. Evrópureglugerðarinnar nr. 223/2009 um hagskýrslugerð, en hún hefur verið innleidd inn í EES samninginn. Slík gögn eru þó ætíð án beinna auðkenna.

Viðurkenndir rannsakendur
Viðurkenndir eða trúverðugir rannsakendur geta sótt um aðgang að örgögnum Hagstofunnar sem safnað hefur verið til hagskýrslugerðar til að framkvæma vísindarannsóknir, í samræmi við 13. grein Hagstofulaganna nr. 163/2007. Til að fá aðgang að örgögnum þurfa rannsakendur að vera tengdir rannsóknarstofnun sem hefur verið viðurkennd af Hagstofu Íslands. Aðgangur að gögnum til rannsakenda er veittur í gegnum fjaraðgangskerfi rannsóknarþjónustu Hagstofunnar. Áður en aðgangur er veittur eru bein auðkenni fjarlægð úr gögnunum og óbein auðkenni fjarlægð eða dulin, eftir því sem mögulegt er og þannig að fyllsta öryggis sé ávallt gætt.