Tilgangur

Stefna um hindrun rekjanleika er til marks um áherslu Hagstofunnar á trúnað í hagskýrslugerð. Hún tekur á mikilvægi þess að fyllsta trúnaðar sé gætt við hagskýrslueiningar þegar opinberar hagtölur eru birtar.

Markmið

Markmið stefnunnar er að samræma vinnulag og tryggja trúnað þeirra upplýsinga sem Hagstofan birtir sem opinberar hagtölur.

Nothæfi

Stefnan tekur til birtingu allra hagtalna af hálfu Hagstofunnar nema annað sé sérstaklega ákveðið.

Stefnumið

Í 10. gr. laga nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð stendur: „Við birtingu og miðlun hagskýrslna skal svo sem frekast er unnt komið í veg fyrir að rekja megi upplýsingar til tilgreindra einstaklinga eða lögaðila. Þetta gildir ekki hafi hlutaðeigandi einstaklingur eða lögaðili samþykkt þess háttar birtingu eða ef um er að ræða opinberar upplýsingar sem ekki þurfa að fara leynt.“

Í samræmi við það virðir Hagstofa Íslands friðhelgi gagnaveitenda, fer með upplýsingar sem þeir veita sem trúnaðarmál og nýtir þær til hagsýslugerðar í samræmi við lög um Hagstofu Íslands, 163/2007. Þegar hagtölur eru birtar er gengið úr skugga um að þeir rjúfi ekki friðhelgi gagnaveitanda á þann hátt að utanaðkomandi aðilar geti komist að upplýsingum um hagskýrslueiningar sem eiga að fara leynt.

Framkvæmd

Hagstofa Íslands beitir viðurkenndum og traustum aðferðum við að hindra rekjanleika við útgáfu hagtalna til að lágmarka hættuna á því að hægt sé að greina einstakar hagskýrslueiningar eða aðrar upplýsingar sem fara skulu leynt samkvæmt lögum.

Hagstofan gerir starfsmönnum kleift að nota sérhæfðar aðferðir við að hindra rekjanleika í gegnum viðeigandi hugbúnaðarlausnir.

Reglulega verða haldin námskeið og kynningar innan Hagstofunnar um hindrun rekjanleika og trúnað í hagskýrslugerð auk þess sem leiðbeiningar um bestu aðferðir við hindrun rekjanleika verða skráðar í aðferðafræðihandbók Hagstofunnar.

Ábyrgð

Hagstofustjóri