FRÉTT VERÐLAG 02. MARS 2018

Gefin hafa verið út Hagtíðindi með niðurstöðum úr rannsókn á útgjöldum heimilanna árin 2011–2016. Niðurstöðunum er skipt upp í þrjú tímabil, í fyrsta lagi 2011–2014 á verðlagi ársins 2014, í öðru lagi 2012–2015 (verðlag 2015) og í þriðja lagi 2013–2016 (verðlag 2016). Niðurstöður eru sundurliðaðar eftir búsetu, heimilisgerð, tekju- og útgjaldahópum. Heildarniðurstöður eru bornar saman við útgjaldarannsóknir fyrri ára.

Meðalútgjöld heimilanna mældust nokkuð stöðug yfir tímabilið 2011–2016 metið á föstu verðlagi. Meðalneysluútgjöld á heimili árin 2013–2016 voru um 520 þúsund krónur á mánuði en mældust um 558 þúsund krónur á mánuði á tímabilinu 2011–2014. Útgjöld meðalheimilis til matarinnkaupa lækkuðu á tímabilinu rétt um 20% og voru orðin 13,1% heildarútgjalda í niðurstöðum áranna 2013–2016 eftir að hafa mælst 15,6% á tímabilinu 2012–2015. Á móti kemur að hlutfallslegt vægi annarra neysluflokka hækkaði, svo sem ferðir og flutningar, tómstundir og menning. Á heimili búa á milli 2,7–2,9 einstaklingar að meðaltali.

Niðurstöður tímabilsins 2013–2016 sýndu að útgjöld tiltekinna neysluflokka voru lítið eitt mismunandi milli búsetusvæða að undanskildum húsnæðisliðnum.

Ráðstöfunartekjur meðalheimilis í rannsókninni 2013–2016 voru 857 þúsund krónur á mánuði (verðlag 2016). Ráðstöfunartekjur allra hópa voru hærri en útgjöld þeirra en neysluútgjöldin voru að meðaltali 60,7% af ráðstöfunartekjum. Í úrtaki áranna 2013–2016 voru 4.850 heimili, 1.678 þeirra tók þátt í rannsókninni og var svörun 34,6%.

Rannsókn á útgjöldum heimilanna er gefin út í þremur heftum Hagtíðinda þar sem niðurstöður fjögurra ára eru dregnar saman. Lengd tímabils hverrar samantektar markast af því að úrtak hvers árs er lítið og því er skeytt saman niðurstöðum nokkurra ára. Fyrri niðurstöður miðast við meðaltal útgjalda á þriggja ára tímabili. Hér er því einnig brugðist við því að árin 2013–2015 var svörun í rannsókninni nokkuð lægri en árin á undan. Framkvæmd rannsóknarinnar var endurbætt til að draga úr svarbyrði þátttakenda og einfalda úrvinnslu, og hefur það skilað sér í bættri svörun.


Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2011-2014 - Hagtíðindi
Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2012-2015 - Hagtíðindi
Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2013-2016 - Hagtíðindi

Talnaefni

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1200 , netfang neysluverd@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.