FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 02. OKTÓBER 2013

Samkvæmt bráðabirgða niðurstöðum fjármálareikninga árið 2012 námu heildarfjáreignir innlendra geira íslenska hagkerfisins 22.361 milljarði króna í árslok 2012 og jukust þær um 3,5% frá fyrra ári. Fjárskuldbindingar voru 30.608 milljarðar króna á sama tíma, eða 0,8% minni en í árslok 2011. Hreinar fjáreignir voru neikvæðar um 8.247 milljarða króna í lok árs 2012 sem rekja má að miklu leyti til neikvæðrar stöðu fjármálafyrirtækja í slitameðferð.

Fjáreignir heimila og félagasamtaka stóðu í 3.794 milljörðum króna í árslok 2012 og voru 8,6% meiri en árið 2011. Fjárskuldbindingar þeirra jukust um 5,5% á sama tíma og voru 1.676 milljarðar króna í árslok 2012. Hreinar fjáreignir heimila og félagasamtaka jukust um 11% á milli 2011og 2012 og stóðu í 2.118 milljörðum króna í lok árs 2012.

  

Samkvæmt fjármálareikningum námu fjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja 6.113 milljörðum króna í árslok 2012 og höfðu aukist um 9,7% frá fyrra ári. Á sama tíma rýrnuðu fjárskuldbindingar þeirra um 1,5% og stóðu í lok tímabilsins í 8.256 milljörðum króna. Niðurstöðurnar verða endurskoðaðar í mars 2014 en þá verða tiltæk ný skattgögn vegna reksturs fyrirtækja árið 2012.

Heildarfjáreignir fjármálafyrirtækja voru 11.184 milljarðar króna í árslok 2012 (8.539 ma. kr. án fjármálafyrirtækja í slitameðferð) og höfðu nánast staðið í stað frá fyrra ári. Verðbréf og veitt lán náðu yfir langstærstan hluta fjáreigna fjármálafyrirtækja og eru flest þeirra gefin út af innlánsstofnunum (31%). Verðbréfeign og veitt lán hækkuðu um 6,5% á milli 2011-2012 og stóðu í 7.954 milljörðum króna í árslok 2012. Samsetningu fjáreigna fjármálafyrirtækja má sjá hér að neðan. 



Fjárskuldbindingar fjármálafyrirtækja í lok árs 2012 voru 18.458 milljarðar króna (þ.a. töldu fjárskuldbindingar fjármálafyrirtækja í slitameðferð 10.196 ma. kr.) og höfðu minnkað um 1,4% frá fyrra ári. Hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja voru neikvæðar um 7.274 milljarða króna í árslok 2012, séu fjármálafyrirtæki í slitameðferð meðtalin. Án fyrirtækja í slitameðferð námu hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja 277 milljörðum króna.

Fjáreignir hins opinbera námu 1.269 milljörðum króna í lok árs 2012. Fjárskuldbindingar hins opinbera voru 2.218 milljarðar króna á sama tíma. Hreinar fjáreignir hins opinbera og undirgeira þess höfðu rýrnað sem nemur 9% frá fyrra ári og voru neikvæðar um 949 milljarða króna í lok árs 2012.

Fjáreignir erlendra aðila hér á landi voru 13.096 milljarðar króna í árslok 2012 og höfðu rýrnað um 4,4% frá fyrra ári. Af heildarfjáreignum erlendra aðila vógu þyngst verðbréfaeign og veitt lán til innlendra aðila eða 11.738 milljarðar króna. Stærstur hluti fjáreigna erlendra aðila á Íslandi er bundinn við fjárskuldbindingar fjármálafyrirtækja í slitameðferð.

Fjárskuldbindingar erlendra aðila við innlenda geira voru 4.833 milljarðar króna í árslok 2012 eða um 11% meiri en árið áður. Hreinar fjáreignir voru því 8.263 milljarðar króna í árslok 2012 og höfðu minnkað um 11,6% frá árslokum 2011.

Fjármálareikningar eru ekki á samstæðum grunni (e. consolidated), þ.e. birtar eru þær stofnstærðir fjármálagerninga sem yfir- og undirgeirar eiga í innbyrðis viðskiptum með. Tölur um verðbréf og lán eru á bókfærðu virði eins og það kemur fyrir í efnahagsreikningum innlánsstofnana og annarra fjármálafyrirtækja.

Næsta birting fjármálareikninga er í mars 2014.

Fjármálareikningar – upplýsingar um aðferðafræði og hugtök, sjá lýsigögn.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.