Fjármálareikningar - árlegir


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Fjármálareikningar - árlegir

0.2 Efnisflokkur

Þjóðhagsreikningar

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Jinny Gupta
Hagstofa Íslands
Þjóðhagsreikningar og opinber fjármál
Tölvupóstfang: thjodhagsreikningar@hagstofa.is
Sími: 528 1000

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Tilgangur fjármálareikninga er að setja fram tölulegt yfirlit yfir fjáreignir og fjárskuldbindingar hagkerfisins í heild sem og allra yfir- og undirgeira þess. Auk þess má finna upplýsingar um flæðistærðir þessa geira, það er viðskiptafærslur, aðrar magnbreytingar og endurmat á fjármálagerningum.

Fjármálareikningarnir fylgja alþjóðlegum stöðlum um gerð þjóðhagsreikninga, nánar tiltekið ESA2010 sem er útfærsla Eurostat, á hinum alþjóðlega þjóðhagsreikningastaðli SNA 2008. Þjóðhagsreikningastaðallinn var innleiddur í september 2014 og tók hann við af ESA95. Nýi staðallinn hefur þó nokkur áhrif á kerfi fjármálareikninga, en breytingarnar ná t.d. til ítarlegri sundurliðunar á efnahagsgeirum og fjármálagerningum, auk flæðistærða.

Hagstofa Íslands fékk styrk í gegnum IPA-fjölþáttaáætlun (e. Instrument for multibeneficiary Pre-Accession Assistance) Evrópusambandsins og nær hann til loka ársins 2014. Meginmarkmið styrksins er að þróa fjármálareikninga fyrir Ísland og koma því verkefni í góðan farveg.

Í maí 2010 hófst eiginleg vinnsla reikninganna þegar Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands gerðu samkomulag um gerð fjármálareikninga . Í samkomulaginu var ábyrgð stofnananna á einstökum þáttum verkefnisins skilgreind. Hagstofan sér um öflun og úrvinnslu gagna vegna fjögurra geira sem eru: 1) Fyrirtæki önnur en fjármálafyrirtæki, 2) Hið opinbera og undirgeirar þess, 3) Heimili og 4) Félagasamtök (e. Non-Profit Institutions Serving Households). Seðlabankinn sér um: 5) Fjármálafyrirtæki og undirgeira þeirra og 6) Útlönd þ.e. útreikninga á erlendri stöðu þjóðarbúsins. Þá er lokafrágangur og afstemming reikninganna, bæði vegna stofn- og flæðistærða, á ábyrgð Hagstofunnar.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Fjármálareikningar eru mikilvægt tæki til að greina fjármagnsstreymi á milli efnahagsgeira innan hagkerfisins og samband innlendra efnahagsgeira við útlönd. Fjármálareikningar auðvelda greiningu á peningalegum meginstærðum og notkun þeirra. Styðjast má við reikningana við mat á áhrifum efnahagstefnu á fjáreignir og fjárskuldbindingar og til að varpa ljósi á frammistöðu hagkerfa.
Reikningarnir eru notaðir við mat á áhrifum breytinga í fjármálaumhverfinu á eignarhald eða fjármálalegar tilfærslur, t.d. vaxta- og verðbreytingar. Hægt er að skoða breytingar á stórum sjóðum fjármálastofnana og notkun þeirra. Viðskiptafærslur fjármálastofnana geta endurspeglað greiðsluhæfni stofnana og breytingar innan þeirra. Munur stofnstærða efnahagsreikninga milli ára getur táknað endurmat og aðrar magnbreytingar sem rekja má til breytinga á mörkuðum, t.d. hlutabréfa- og gjaldeyrismörkuðum. Hægt er að nota fjármálareikninga í samanburði ríkja og draga þannig upp mynd af greiðsluhæfi hvers ríkis í heild eða einstakra efnahagsgeira.

0.6 Heimildir

Ýmsar heimildir eru notaðar við gerð fjármálareikninga:

  • Hið opinbera og undirgeirar þess: Ríkisreikningur , reikningar sveitarfélaga og almannatrygginga.
  • Útlönd: Erlend staða þjóðarbúsins, gögnum safnað af Seðlabanka Íslands.
  • Fjármálafyrirtæki og undirgeirar: Efnahagsreikningar, gögnum safnað af Seðlabanka Íslands. Skattframtöl frá Ríkisskattstjóra.
  • Fyrirtæki önnur en fjármálafyrirtæki og bundin fjármálafyrirtæki (eignarhaldsfélög): Efnahagsreikningar og skattframtöl frá Ríkisskattstjóra.
  • Heimili og félagasamtök: Skattframtöl frá Ríkisskattstjóra.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Sjá lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Fjármálareikningar nýta ýmsar stjórnsýsluskrár sem safnað er í öðrum tilgangi. Seðlabankinn útvegar gögn vegna fjármálafyrirtækja og útlanda. Deild opinberra fjármála útvegar að stærstum hluta gögn við afstemmingu á reikningum hins opinbera. Til þess að halda svarbyrði í lágmarki er lítið leitað beint til fyrirtækja og þá helst varðandi gögn sem þegar eru tiltæk. Ekki er leitað til einstaklinga.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Í reglugerð Evrópusambandsins nr. 2223/96 er kveðið á um samræmdar aðferðir við gerð þjóðhagsreikninga í ríkjum ESB og EES.
Birting og gagnasending fjármálareikninga er samkvæmt reglugerð Evrópusambandsþingsins og -ráðsins um skil á þjóðhagsreikningagögnum, nr. 1392/2007 frá 13. nóvember 2007.
Sjá nánar: http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2007:324:0001:0078:EN:PDF

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Fjármálareikningarnir eru flokkaðir á tvo vegu, þ.e. í þátttakendur á fjármálamarkaði (efnahagsgeirar) og fjármálagerninga. Flokkun fjármálagerninga er háð greiðslufærni eða torseljanleika þeirra og lögbundnum einkennum. Íslensku reikningarnir eru ekki samstæðureikningar (e. consolidated) að útlöndum undanskildum.
Fjármálareikningar sýna fjáreignir og fjárskuldbindingar viðkomandi lands, sem stofnstærðir (e. stocks) og viðskiptafærslur (e. transactions) og aðrar hagrænar breytingar (e. other economic changes), sem sundurgreina má í endurmat og aðrar magnbreytingar (e. revaluation and other volume changes). Við uppgjör fjármálareikninga er eign eins geira færð sem skuld hjá öðrum geirum. Undantekning frá þessu er þó gullforði Seðlabankans og sérstök dráttarréttindi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en skv. ESA 2010 munu sérstök dráttarréttindi verða færð á mótgeirann útlönd. Fjármálareikningar sýna fjármögnun geiranna á eigin rekstri eða annarra og gefa innsýn í þá fjármálagerninga sem notaðir eru.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Samkvæmt ESA 2010 eru fjármálagerningarnir alls átta og eru í stuttu máli sem hér segir:
AF.1 Gull og sérstök dráttarréttindi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (e. Monetary Gold & Special Drawing Rights, SDRs): Þetta á aðeins við Seðlabanka Íslands, þ.s. gull er hluti af gjaldeyrisforða Seðlabankans sem og sérstök dráttarréttindi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
AF.2 Sjóðir og innistæður (e. Currency and Deposits): Seðlar í umferð og innlán sem unnt er að breyta í gjaldmiðil án verulegra takmarkana.
AF.3 Verðbréfaeign/-útgáfa önnur en hlutafé (e. Debt securities): Seljanleg verðbréf án ákvörðunarréttar og sambærileg skuldaskjöl.
AF.4 Útlán/lántaka (e. Loans): Öll lán fjármálastofnana.
AF.5 Hlutabréfaeign og annað eigið fé (e. Equity and investment fund shares or units): Skráð og óskráð hlutabréf og hlutdeildarskírteini og hlutir í hlutdeildarfélögum.
AF.6 Vátryggingaeign/-skuld (e. Insurance Technical Reserves): Skaðatryggingar, líftryggingar og lífeyris-réttindi.
AF.7 Afleiður (e. Financial derivatives and employee stock options). Afleiðuviðskipti og sambærilegir framvirkir samningar.
AF.8 Aðrar viðskiptakröfur/-skuldir (e. Other Accounts Receivable/Payable)

Samkvæmt ESA 2010 flokkast hver gerningur í undirflokka, en núverandi reikningar búa ekki yfir þess konar upplýsingum að svo stöddu.

Við gerð fjármálareikninga er íslenska hagkerfinu skipt í nítján efnahagsgeira. Íslenski efnahagsgeirinn skiptist í fimm yfirgeira og þrettán undirgeira en nítjándi efnahagsgeirinn, útlönd, nær yfir alla erlenda aðila. Yfir- og undirgeirarnir eru eftirfarandi:

S.1 Ísland (innlendir efnahagsgeirar)
S.11 Fyrirtæki önnur en fjármálafyrirtæki
S.12 Fjármálafyrirtæki
S.121 Seðlabanki Íslands
S.122 Innlánsstofnanir
S.123 Peningamarkaðssjóðir
S.124 Verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóðir
S.125 Önnur fjármálafyrirtæki
S.125X Fjármálafyrirtæki í slitameðferð
S.126 Þjónustuaðilar við fjármálafyrirtæki
S.127 Bundnar fjármálastofnanir (þ.m.t. eignarhaldsfélög)
S.128 Tryggingafélög
S.129 Lífeyrissjóðir
S.13 Hið opinbera
S.1311 Ríkið
S.1313 Sveitarfélög
S.1314 Almannatryggingar
S.14+S.15 Heimili (S.14) og félagasamtök (S.15)
S.2 Útlönd (erlendir efnahagsgeirar)

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Árstölur vísa til almanaksárs.

2.2 Vinnslutími

Fyrsta útgáfa fjármálareikninga, náði einungis til stofnstærða áranna 2003-2011 og var birt í mars 2013. Fyrsta útgáfa fjármálareikninga samkvæmt nýjum þjóðhagsreikningastaðli ESA2010, náði til stofn- og flæðistærða allra efnahagsgeira árin 2003-2013 og var birt í október 2014.

2.3 Stundvísi birtingar

Niðurstöður eru birtar samkvæmt birtingaráætlun Hagstofunnar.

2.4 Tíðni birtinga

Árleg bráðabirgðagögn vegna hagkerfisins í heild verða gefin út með níu mánaða tímatöf (t+9) og lokagögn með 15 mánaða tímatöf (t+15). Sending gagna til hlutaðeigandi alþjóðastofnana mun fylgja í kjölfar birtingar hér heima. Fjármálareikningarnir verða aðgengilegir á íslensku og ensku á heimasíðu Hagstofunnar.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Með kerfisbundinni afstemmingu og ítarlegri sundurliðun gagna að uppskrift þjóðhagsreikningastaðals ESA 2010 má tryggja nákvæmni fjármálareikninga. Fjármálagerningar eru almennt færðir á markaðsvirði. Þegar markaðsverð er ekki fyrir hendi þarf að beita nálgunum sem eiga að endurspegla verð fjármálagernings í viðskiptum á markaði. Virði fjármálagerninga sem upphaflega eru skráðir í erlendri mynt þarf að færa yfir í íslenskar krónur á markaðsgengi þess dags sem efnahagsreikningurinn er miðaður við. Þá getur reynst vandasamt að meta einstaka fjármálagerninga, en sem dæmi eru öll hlutabréf, skráð og óskráð, og eigið fé meðhöndlað sem óskráð hlutabréf/eigið fé sökum smæðar íslenska hlutabréfamarkaðsins.

Til afstemmingar á reikningunum þarf að vera hægt að bera saman tiltæk gögn við aðra geira sem birta svokölluð mótgögn (e. counterpart data). Umtalsverður mismunur getur verið á milli tveggja geira vegna sama gernings þar sem upplýsingar um fjárhæðir fást bæði frá lánadrottni og skuldunauti. Þessi munur getur stafað af ólíkum skilgreiningum og matsaðferðum. Þá þarf að meta áreiðanleika gagna eftir uppruna þeirra og þannig ákvarða lokastöðu útistandandi eigna/skulda.

Röð efnahagsgeira eftir áreiðanleika niðurstaðna er sýnd hér en hún er notuð þegar lokastaða fjáreigna og fjárskuldbindinga hagkerfisins er metin.

Áreiðanleikaröð:
1. Hið opinbera
2. Seðlabanki Íslands
3. Útlönd (Erlend staða þjóðarbúsins)
4. Fjármálafyrirtæki
5. Fjármálafyrirtæki í slitameðferð
6. Fyrirtæki önnur en fjármálafyrirtæki
7. Heimili og félagasamtök

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Við uppbyggingu fjármálareikninga hefur þurft að taka á nokkrum vandamálum sem tengjast gagnasöfnun og aðferðafræði. Einhver skortur hefur verið á gögnum og þá hafa ákveðin gögn aðeins verið fáanleg sem heildargögn sem gerir það að verkum að sundurliðun á milli geira og fjármálagerninga er erfið. Til dæmis eru verðbréf fyrirtækja og heimila ein samtala í skattframtölum. Verðbréf og afleiður eru sett saman í einn flokk (AF.3+AF.7) í núverandi fjármálareikningum vegna uppgjörsvanda hjá skilaaðilum sem tengjast afleiðum, en afleiðuviðskipti hafa ekki verið gerð upp að fullu frá fjármálahruni og nota fyrirtæki mismunandi uppgjörsaðferðir.

Erfitt er að draga rétta mynd af íslenska hagkerfinu á árunum 2007-2009 vegna gagnavandamála í kjölfar fjármálahrunsins, en straumhvörf (e. structural break) má glögglega sjá í flestum tímaröðunum. Vandasamt hefur verið að meta eignir og skuldir þessa tímabils þar sem ekkert raunverulegt markaðsvirði er til staðar. Fall krónunnar og stöðugar sveiflur gjaldmiðilsins hafa einnig í för með sér aukið misræmi í birtum gögnum. Þá voru gögn fjármálastofnana minna sundurliðuð fyrr á árum sem hefur gert geiraflokkun vanda¬samari.

Misræmi hefur verið á milli gagna frá erlendum aðilum (S.2) og fjármálafyrirtækjum (S.12) og hefur hvert einstakt tilfelli verið metið. Í gögnum frá erlendum aðilum eru erlendar fjáreignir og -skuldbindingar gerðar upp á miðgengi Seðlabankans, en í efnahagsyfirlitum fjármálastofnana er ýmist stuðst við kaup- eða sölugengi sem veldur skekkju, sérstaklega þegar um háar fjárhæðir er að ræða.

Ósamræmi kemur fram í gögnum RSK og innlánsstofnana um útlán til fyrirtækja og heimila, sér í lagi árin 2008-2009 en þá höfðu viðskiptabankarnir keypt útlán af gömlu bönkunum og var bókfært virði þeirra lægra en fram kemur í gögnum RSK. Misræmi er einnig í gögnum frá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð og fjármálastofnunum en í innsendum efnahagsyfirlitum fjármálafyrirtækja í slitaferli koma allar kröfur fram sem gerðar eru í þrotabúin. Eigendur þessara krafna hafa aftur á móti lækkað hluta af kröfunum þar sem ekki er gert ráð fyrir að allt innheimtist. Hafa ber í huga að tölur um lán eru á bókfærðu virði eins og það kemur fyrir í efnahagsreikningum innlánsstofnana.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engar sérstakar rannsóknir hafa verið gerðar á skekkju eða öryggismörkum fjármálareikninga.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Mikilvægt er samræmdum aðferðum sé beitt við gerð fjármálareikninga frá ári til árs svo tímaraðir verði eins sambærilegar og kostur er. Með tilkomu nýrra og betri heimilda eða aðferða getur sambærileikinn raskast og er þá leitast við að leysa þann vanda. Með innleiðingu nýja þjóðhagsreikningastaðalsins ESA 2010 var tímaröðum breytt aftur til upphafsárs reikninganna, 2003, til að gæta samræmis í tímaröðunum.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Samanburður á fjármálareikningum við innlendar hagtölur er ýmsum takmörkunum háður. Má þar einna helst nefna að skilgreiningar yfir- og undirgeira á einstaka fjármálagerningum geta verið breytilegar. Eins geta reikniaðferðir verið ólíkar og því virði gerninganna breytilegt samkvæmt því.
Samanburður við erlendar hagtölur er afar algengur og ætti að vera marktækur fyrir þau lönd sem fylgja sama staðli við gerð þjóðhagsreikninga.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Litið er svo á að engar þjóðhagsreikningatölur séu lokatölur en í 15. mánuði eftir að árinu lýkur eru tölur ekki lengur kallaðar bráðabirgðatölur, sbr. grein 2.4 hér að framan. Fjármálareikningar eru þróunarverkefni og geta tekið breytingum á milli birtinga með tilkomu betri gagna og bættrar aðferðafræði.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Vefur Hagstofu Íslands
Hagtíðindi
Gagnabankar OECD og Eurostat sem eru aðgengilegir á heimasíðum þessara stofnana.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofunni. Afstaða er tekin til þess hverju sinni hvort utanaðkomandi aðilar fái aðgang að ítarlegri sundurliðun gagna en birt er. Í því sambandi er verndun trúnaðarupplýsinga höfð í fyrirrúmi skv. verklagsreglum Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna.

5.3 Skýrslur

European system of accounts 2010 (ESA 2010). http://epp.eurostat.ec.europa.eu/portal/page/portal/esa_2010/introduction
System of National Accounts, útgáfur 1993 og 2008. Þjóðhagsreikningastaðall, samantekinn af vinnuhópi á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD og Sameinuðu þjóðunum.
IMF Working Paper: An integrated Framework for Financial Positions and Flows on a From-Whom-to-Whom Basis: Concepts, Status, and Prospects. Eftir: Shrestha, M, Mink, R., Fassler, S. (2012). Sjá: http://www.nber.org/chapters/c12835.pdf
Manual on sources and methods for the compilation of ESA 95 financial accounts. 2nd edition - 2011 update. Leiðarvísir samantekinn af Eurostat.

5.4 Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um einstaka þætti fjármálareikninga fást hjá framangreindum starfsmönnum deildar Þjóðhagsreikninga og opinberra fjármála.

© Hagstofa �slands, �ann 13-4-2016