Hrein fjáreign innlendra aðila var neikvæð um 736,6 milljarða króna í lok árs 2016 en hafði verið neikvæð um 839,1 milljarð króna árið áður. Heildarskuldbindingar innlendra efnahagsgeira lækkuðu um 3,4% milli ára og námu 28.491 milljarði króna eða 1.163% af landsframleiðslu í árslok 2016. Á sama tíma lækkuðu fjáreignir um 3,1% milli ára og stóðu í 27.755 milljörðum króna eða 1.133% af landsframleiðslu.
Fjáreignir og -skuldbindingar fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja hækkuðu um 1,9% og 2,2% á árunum 2015 og 2016.
Eignir fjármálafyrirtækja minnkuðu um 9,3% og skuldbindingar um 7,1% á milli ára. Allar útistandandi fjáreignir og skuldbindingar slitabúa föllnu bankanna voru gerðar upp á árinu, en það útskýrir lækkun milli áranna 2015 og 2016.
Eignir hins opinbera stóðu í 1.319 milljörðum króna (54% af vergri landsframleiðslu) og skuldir í 2.261 milljarði (92% af vergri landsframleiðslu) í lok árs 2016.
Fjáreignir heimilanna stóðu í 5.631 milljarði og skuldir í 1.930 milljörðum í lok árs 2016. Heildarfjáreignir jukust um tæplega 8,3% en skuldir hækkuðu um rúmlega 2,3% milli 2015 og 2016.
Erlendar fjármálaeignir stóðu í 4.543 milljörðum króna (186% af vergri landsframleiðslu) og skuldbindingar í 3.798 milljörðum (155% af vergri landsframleiðslu). Fjáreignir lækkuðu um 22% og skuldbindingar um tæp 24% milli áranna 2015 og 2016.
Næst birtir Hagstofa Íslands fjármálareikninga í apríl 2018.
Fjármálareikningar – upplýsingar um aðferðafræði og hugtök, sjá lýsigögn.
Fjármálareikningar 2005–2016 — Hagtíðindi