FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 26. APRÍL 2017

Hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja voru jákvæðar um 665,9 ma. kr. í árslok 2015 samkvæmt nýuppfærðum tölum Hagstofu Íslands. Áhrif slitabúa föllnu fjármálafyrirtækjanna (gömlu bankanna) á fjármálareikninga hafa verið mjög mikil, þar sem hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja árið 2014 voru neikvæðar um 2.947 ma. kr. Uppgjör bankanna er því mjög áberandi.

Fjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja minnkuðu um 1,3% að nafnvirði á milli ára og stóðu í 4.869 ma. kr. í árslok 2015. Á sama tíma námu fjárskuldbindingar 8.584 ma. kr. sem er 3,89% minnkun á milli ára. Hreinar fjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja voru neikvæðar um 3.715 ma. kr., eða 168% af VLF, í lok árs 2015.

Hreinar fjáreignir hins opinbera og undirgeira þess voru neikvæðar um 1.158 ma. kr. í árslok 2015 og höfðu skuldir umfram eignir aukist um 19,7% frá fyrra ári, að mestu vegna lækkunar á fjáreignum.

Hreinar fjáreignir heimila jukust um 20,8% milli ára og námu 3.249 ma. kr. í árslok 2015. Það jafngildir 146,7% af vergri landsframleiðslu. Fjáreignir heimila námu 5.137 ma. kr. í árslok 2015, en stærstur hluti þeirra, eða 75,3%, eru lífeyrisréttindi. Fjárskuldbindingar heimila voru 1.889 ma. kr. í árslok 2015, og höfðu minnkað um 1,9% frá árinu áður.

Heildarfjáreignir innlendra efnahagsgeira námu 28.234 ma. kr. í árslok 2015 en fjárskuld-bindingar voru 29.115 ma. kr. á sama tíma. Fjáreignir erlendra aðila á Íslandi námu 5.835 ma. kr. og höfðu minnkað um 38,1%, en fjárskuldbindingar við innlenda aðila voru 4.916 ma. kr. í lok árs 2015. Hreinar fjáreignir erlendra aðila á Íslandi voru 919 ma. kr. í árslok 2015 og höfðu rýrnað um 82,3% frá fyrra ári.

Hagstofa Íslands gefur nú út endurskoðaða fjármálareikninga fyrir Ísland. Gögnin ná til stofnstærða fjáreigna og fjárskuldbindinga allra efnahagsgeira íslenska hagkerfisins og eru flokkuð eftir þátttakendum á fjármálamarkaði (efnahagsgeirum) og fjármálagerningum samkvæmt alþjóðlegum þjóðhagsreikningastöðlum sem auðveldar samanburð á milli landa. Tímaraðirnar ná yfir árin 2003–2015. Þess ber að geta að vinnsla fjármálareikninga er þróunarverkefni hjá Hagstofu Íslands. Slitabú föllnu bankanna hafa haft þó nokkur áhrif á fjármálareikninga hagkerfisins, en nú þegar þau hafa verið gerð að mestu upp munu tölurnar gefa skýrari mynd af umsvifum fjármálakerfisins í framtíðinni.

Næsta birting fjármálareikninga er í september 2017

Fjármálareikningar –nánari upplýsingar um skilgreiningar og aðferðafræði, sjá lýsigögn.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.