FRÉTT MANNTAL 25. MAÍ 2023

Flest hátekjuheimili eru á Seltjarnarnesi og í Garðabæ en mörg tekjulág heimili í miðborg Reykjavíkur og á Ásbrú samkvæmt manntali 1. janúar 2021. Í dag birtir Hagstofan niðurstöður úr manntalinu um tekjur heimila. Þetta er sjötta fréttin í útgáfuröð manntalsins.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Tæp 54% heimila í neðsta tekjufimmtungi voru heimili með einum einstaklingi samkvæmt manntalinu 1. janúar 2021.
  • Hæst hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi var á Seltjarnarnesi (34%).
  • Full atvinnuþátttaka var á 62% heimila.
  • Um 75% heimila voru í eigin húsnæði samkvæmt manntalinu 2021 en voru 72% árið 2011.
  • Hlutfall heimila með tvo bíla eða fleiri var 37% í manntalinu 2021 en var 33% árið 2011.

Skipting tekna var misjöfn eftir heimilisgerð í manntalinu 2021
Ef heimilum í landinu er skipt upp í jafna tekjufimmtunga með rúmlega 26 þúsund heimilum í hverjum fimmtungi kemur í ljós að í efsta tekjufimmtungi voru heimili para með börn hlutfallslega flest en heimili einstæðra foreldra hlutfallslega fæst. Hæst hlutfall heimila í neðsta tekjufimmtungi voru heimili með einum einstaklingi. Í efsta tekjufimmtungi eru heimili sem hafa 889 þúsund krónur eða meira á mánuði á neyslueiningu en í neðsta tekjufimmtung falla þeir sem hafa minna en 414 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi tekna í efsta tekjufimmtungi var 1,1 milljón króna á mánuði en miðgildi neðsta tekjufimmtungs var tæp 343 þúsund krónur á neyslueiningu. Ef miðgildið í neðsta tekjufimmtungi er fært yfir á pör með tvö börn yngri en 14 ára myndu heildartekjur þeirrar fjölskyldu reiknast sem 720 þúsund krónur á mánuði.

Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna, félagslegra greiðslna, lífeyrisgreiðslna og annarra tekna fyrir skatta næstu 12 mánuði fyrir viðmiðunardag manntalsins.

Hlutfall heimila í neðsta tekjufimmtungi var hæst innan smásvæðis í Reykjanesbæ (42,4%) og tveggja smásvæða í miðborg Reykjavíkur. Hlutfall heimila í neðsta tekjufimmtungi var yfir 30% á öllum smásvæðum í miðborg Reykjavíkur. Dekkri svæðin á kortinu að neðan sýna hærra hlutfall heimila í neðsta tekjufimmtungi og ljósari svæði sýna svæði þar sem hlutfallið er lægst. Lægst hlutfall heimila í neðsta tekjufimmtungi var í smásvæði á Seltjarnarnesi (8,2%) og Akranesi (8,6%) en þar á eftir voru fjögur smásvæði í Garðabæ.

Hæst hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi á Seltjarnarnesi
Ef litið er til sveitarfélaga var hæst hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi á Seltjarnarnesi og í Garðabæ. Lægst hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi var í Þingeyjarsveit og Húnaþingi vestra. Mest breyting frá manntalinu 2011 var í Vestmannaeyjum þar sem hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi lækkaði um 8,1 prósentustig (úr 30,2% í 22,1%) og á Skagaströnd, um 7,7 prósentustig. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fjölgaði heimilum í efsta tekjufimmtungi mest allra sveitarfélaga og þar næst í Hrunamannahreppi.

Full atvinnuþátttaka á 62% heimila
Á tæpum 62% heimila í landinu voru allir fullorðnir, 18-67 ára, í vinnu samkvæmt manntalinu 2021. Einn eða fleiri fullorðnir sem ekki voru í vinnu voru á tæplega 24% heimila. Á um 15% heimila var enginn fullorðinn með vinnu. Hlutfallið var nokkuð mismunandi eftir tegund heimilis og var hæst hlutfall heimila þar sem allir fullorðnir voru í vinnu hjá einstæðum feðrum og pörum með börn. Hæst hlutfall heimila þar sem enginn var með vinnu var á einstaklingsheimilum og heimilum einstæðra mæðra.

Hærra hlutfall heimila í eigin húsnæði 2021 en 2011
Alls voru 97.951 heimili af 130.899 heimilum í landinu í eigin húsnæði í manntalinu 2021 eða tæp 75%. Þetta er aðeins hærra hlutfall en var í manntalinu 2011 (tæp 72%). Rúm 90% para án barna bjuggu í eigin húsnæði en það var sú heimilisgerð þar sem hlutfallið var hæst. Lægst var hlutfallið á meðal heimila með tveimur eða fleiri einstæðingum sem var eina tegund heimilis þar sem hlutfallið lækkaði frá síðasta manntali. Næst lægst var hlutfallið á meðal einstæðra mæðra.

Heimilum með tvo bíla eða fleiri fjölgar á milli manntala
Alls voru bílar á 110.699 einkaheimilum 1. janúar 2021. Það eru 84,6% heimila landsins en í manntalinu 2011 var hlutfall heimila með bíl örlítið lægra eða 83,5%. Flest heimili voru með einn bíl eða rúm 62 þúsund en rúm 48 þúsund heimili voru með tvo bíla eða fleiri. Hlutfall heimila með tvo bíla eða fleiri hækkaði úr 33% í manntalinu 2011 í 37% árið 2021. Bíllaus heimili voru 20.150, 15,4% af heildarfjölda heimilia í landinu og hafði hlutfall þeirra lækkað aðeins frá síðasta manntali þegar bíllaus heimili voru 16,5%.

Hæst hlutfall bíllausra heimila var innan smásvæða í miðborg Reykjavíkur, Hlíðum og Vesturbæ norður (35-42% heimila). Lægst hlutfall bíllausra heimila var í smásvæðum í Mosfellsbæ, Garðabæ og Vesturlandi án Akraness (3,9-4,7%).

Talnaefni

Greinargerð - Manntal og húsnæðistal 1. janúar 2021 (birt 14. nóvember 2022)

Eldri fréttir
Mannfjöldi á Íslandi 359.122 samkvæmt manntali 2021
Fjöldi innflytjenda hefur tvöfaldast frá manntalinu 2011
Rúmur þriðjungur íbúa landsins háskólamenntaður
Mikill munur á hlutfalli starfandi einstaklinga eftir smásvæðum
Fjöldi heimila á Íslandi 130.849 árið 2021

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang manntal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.