FRÉTT MANNFJÖLDI 02. MARS 2007

Á árinu 2006 var fólksfjölgun á Íslandi með því mesta sem mælst hefur. Hinn 31. desember 2006 voru landsmenn 307.672 samanborið við 299.891 ári áður. Þetta jafngildir því að íbúum hafi fjölgað um 2,6% á einu ári. Þetta er mjög mikil fjölgun hvort sem litið er til annarra Evrópulanda eða þróunar á Íslandi undanfarna áratugi. Undanfarinn áratug hefur fólksfjölgun í álfunni í heild verið um 0,2% og í einungis örfáum löndum fjölgar íbúum um meira en 1% á ári.

Ef litið er til fyrri tímabila hér á landi hefur fólksfjölgun ekki verið meiri síðan um miðbik sjötta áratugarins. Fólksfjölgun hafði þá aukist hröðum skrefum frá því á stríðsárunum og náð hámarki árið 1957 en það ár fjölgaði landsmönnum nær nákvæmlega jafnmikið og á síðasta ári. Eftir það dró úr fólksfjölgun og um miðbik níunda áratugarins féll fólksfjölgun niður fyrir 1%. Þetta var í fyrsta sinn síðan á kreppuárunum á fjórða áratug aldarinnar að fólksfjölgun varð svo lítil. Mestallan tíunda áratug 20. aldarinnar og til 2003 var árleg fólksfjölgun rétt undir 1% en á allra síðastu árum hefur hún aukist svo um munar, var 1,0% árið 2004 og 2,2% árið 2005.

Fram undir 1980 var mikil fólksfjölgun hérlendis nær eingöngu rakin til mikillar náttúrulegrar fjölgunar (þ.e. fæddir umfram dána). Lífslíkur jukust alla 20. öldina og í samanburði við önnur Evrópulönd hefur fæðingartíðni hér á landi verið há. Við upphaf sjöunda áratugarins gat hver kona vænst þess að eignast fjögur börn á ævinni. Undanfarna áratugi hefur dregið úr frjósemi og um þessar mundir eignast konur hér á landi tvö börn um ævina að meðaltali. Mynd sýnir að náttúruleg fólksfjölgun var mest hér á landi frá lokum seinni heimsstyrjaldar til miðs sjöunda áratugarins. Allan þann tíma var flutningsjöfnuður lágur og allmörg ár þessa tímabils voru þeir sem fluttust af landi brott fleiri en þeir sem fluttu til landsins.
 
Þótt náttúruleg fólksfjölgun eigi enn talsverðan þátt í fjölgun íbúa hér á landi verður mikil fólksfjölgun undanfarin ár öðru fremur rakin til mikils aðstreymis fólks frá útlöndum. Á árinu 2006 var fjöldi aðfluttra umfram brottflutta í flutningum til landsins 5.255. Á sama tíma voru fæddir umfram dána rétt um 2.500. Náttúruleg fólksfjölgun á árinu nam tæpu 0,9% en flutningsjöfnuður var 1,7%. Til samanburðar má geta þess að árið 1957, þ.e. eina árið á 20. öldinni þegar fólksfjölgun var jafnmikil og nú, var náttúruleg fjölgun 2,5% en flutningsjöfnuður 0,4%.

    
Í nýlegu Hagtíðindariti um búferlaflutninga 1986-2006 kemur fram að meiri hluti þeirra einstaklinga sem fluttust til landsins á árinu 2006 voru erlendir ríkisborgarar. Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár og er hlutfall þeirra af íbúum í heild 6%. Nánari greining á erlendum ríkisborgum hér á landi verður gerð í frétt frá Hagstofu Íslands hinn 9. mars næstkomandi. 

Talnaefni
    Sveitarfélög
    Byggaðkjarnar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.