FRÉTT LAUN OG TEKJUR 22. SEPTEMBER 2021

Laun hækkuðu að jafnaði um 0,3% í ágúst 2021 frá fyrri mánuði samkvæmt launavísitölu. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 7,9%. Frá ársbyrjun 2021 og fram í ágúst hækkaði launavísitala um 5,7%.

Mest hækkaði vísitalan í janúar á þessu ári þegar laun hækkuðu um 3,7% en þá hækkun má að mestu rekja til ákvæða kjarasamninga sem náðu til meirihluta launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Á árinu 2021 hefur gætt áhrifa vegna styttingar vinnuvikunnar til hækkunar launavísitölu en einungis hjá opinberum starfsmönnum.

Áhrif vegna ákvæða kjarasamninga koma fram á ólíkum tíma
Frá janúar 2019 til júní 2021 hafa laun samkvæmt launavísitölu hækkað um 16,8% á almennum vinnumarkaði, 19,2% hjá ríkisstarfsmönnum og 25,2% hjá starfsfólki sveitarfélaga. Á tímabilinu hafa hækkanir launþegahópa komið inn á ólíkum tíma vegna mismunandi tímasetninga í kjarasamningum og er mikilvægt að taka mið af því til að fá sambærilegan samanburð á milli hópa.

Árið 2019 komu lífskjarasamningar til framkvæmda á almennum vinnumarkaði sem kveða meðal annars á um krónutöluhækkanir og styttingu vinnuvikunnar hjá hluta launafólks. Sambærilegir kjarasamningar voru gerðir árið 2020 hjá meirihluta opinbers starfsfólks og fólu þeir í sér tvær kjarasamningshækkanir á árinu 2020, þ.e. vegna ársins 2019 og 2020 þar sem samningar höfðu verið lausir frá fyrri helmingi árs 2019.

Hlutfallsleg launahækkun starfsmanna sveitarfélaga hefur verið meiri en hjá bæði ríkisstarfsmönnum og starfsfólki á almennum vinnumarkaði frá því að kjarasamningar komu til framkvæmda árið 2020. Í því samhengi er vert að hafa í huga að kjarasamningar sem kveða á um krónutöluhækkanir fela í sér að lægri laun hækka hlutfallslega meira en hærri laun. Samanburður á launastigi launaþegahópa sýnir að laun starfsfólks sveitarfélaga eru að jafnaði lægst sem skýrir hærri hlutfallslega hækkun launa í þeim hópi.

Á tímabilinu hafa laun opinberra starfsmanna hækkað meira að jafnaði en starfsmanna á almennum vinnumarkaði vegna styttingu vinnuvikunnar. Launaþróun samkvæmt launavísitölu byggir á verði vinnustundar og getur stytting vinnuvikunnar umfram niðurfellingu á neysluhléum verið ígildi launabreytinga. Þegar greiddum stundum fækkar en laun haldast óbreytt hækkar launavísitala.

Stytting vinnuvikunnar meiri hjá opinberum starfsmönnum
Áhrif vinnutímastyttingar í kjarasamningum sem gerðir voru árin 2019 og 2020, og talin eru ígildi launabreytinga, komu fyrst fram í launavísitölu í nóvember 2019. Stytting vinnuvikunnar var meiri hjá opinberum starfsmönnum en á almennum vinnumarkaði og náði til stærri hluta launafólks. Opinberir starfsmenn vega hins vegar minna inn í heildarvísitölu en starfsmenn á almennum vinnumarkaði eða tæplega 30%. Áhrif styttingar vinnutíma á launavísitöluna frá nóvember 2019 til júní 2021 eru metin um 1,7 prósentustig.

Horft til launaþegahópa eru áhrif styttingar vinnuviku frá nóvember 2019 til júní 2021 metin vera um 0,9 prósentustig á almennum vinnumarkaði, 2,7 prósentustig hjá ríkisstarfsmönnum og 3,0 prósentustig hjá starfsfólki sveitarfélaga. Áhrifin voru mest á almennum vinnumarkaði í janúar 2020 en þá hækkuðu laun um 1,0% á milli mánaða en án áhrifa styttingar vinnutíma hefði hækkunin verið 0,3%. Hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga voru áhrif vinnutímastyttingar til hækkunar launa mest í janúar 2021 vegna vinnutímastyttingar dagvinnufólks og maí 2021 vegna vaktafólks.

Í janúar 2021 hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 5,3% en metin hækkun hefði verið 4,0% án áhrifa vinnutímastyttingar. Starfsfólk sveitarfélaga hækkaði á sama tíma um 6,0% frá fyrri mánuði, en metin hækkun hefði verið um 4,4% án áhrifa vinnutímastyttingar. Í maí 2021 hækkuðu laun ríkisstarfsmanna hins vegar um 1,3% frá fyrri mánuði en án áhrifa vinnutímastyttingar hefðu laun verið óbreytt á milli mánaða. Laun starfsmanna sveitarfélaga hækkuðu á sama tíma um 1,5% en hækkunin hefði verið 0,2% án áhrifa vinnutímastyttingar.

Fyrirséð er að stytting vinnuvikunnar muni hafa áhrif á launavísitölu á næstu mánuðum. Þannig munu félagar í Samiðn, Félagi hársnyrtisveina, Grafíu, VM - félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Matvís og RSÍ geta tekið einhliða ákvörðun um það að hætta töku kaffitíma og stytt vinnutíma um 9 mínútur til viðbótar þann 1. janúar 2022. Með samkomulagi starfsmanna og launagreiðanda er hægt að stytta vinnutímann um allt að 13 mínútur en sú heimild tók gildi 1. apríl 2020. Nánar er fjallað um áhrif vinnutímabreytinga á almennum vinnumarkaði í frétt Hagstofunnar frá 22. maí 2020 og um vinnutímabreytingar opinberra starfsmanna í fréttum Hagstofunnar frá 23. febrúar 2021 (starfsfólk í dagvinnu) og 23. júní 2021 (vaktafólk).

Um launavísitölu
Í lögum um launavísitölu nr. 89/1989 kemur fram að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans skuli ekki hafa áhrif á vísitöluna nema um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga. Í kjarasamningum sem gerðir voru á árunum 2019 og 2020 voru ákvæði um styttingu vinnutíma sem hafa áhrif til hækkunar á launavísitölu þar sem verð vinnustundar hækkar þegar færri vinnustundir eru að baki launum. Útfærslur styttingar eru mismunandi, svo sem dagleg stytting eða styttri vinnudagur einu sinni í viku en þær hafa sömu áhrif á launavísitölu þar sem heildarstytting er sú sama.

Launavísitala mælir breytingar reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða greidda dagvinnu eða vaktavinnu. Í reglulegum launum er tekið tillit til hvers konar álags- og bónusgreiðslna, svo sem fasta/ómælda yfirvinnu, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Tilfallandi yfirvinnugreiðslur eru ekki hluti reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir, eins og eingreiðslur eða leiðréttingar, sem ekki eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Niðurstöður launavísitölu byggja á launagögnum Hagstofunnar.

Nánari upplýsingar um aðferðir launavísitölu má finna í lýsigögnum um launavísitölu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.