Launavísitala í apríl 2020 hækkaði um 3,3% frá fyrri mánuði og gætir þar meðal annars áhrifa launahækkana sem samið var um í kjarasamningum. Um er að ræða kjarasamninga bæði á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum, en stór hluti launafólks á íslenskum vinnumarkaði fékk kjarasamningshækkun í aprílmánuði. Í samningum er almennt kveðið á um hækkun mánaðarlauna fyrir fullt starf um 18 þúsund krónur og hækkun kauptaxta um 24 þúsund krónur.

Vakin er athygli á því að í mars 2020 voru einnig gerðir nokkrir afturvirkir kjarasamningar, til að mynda hjá félagsmönnum innan BSRB. Þeir samningar kveða á um launahækkanir ýmist 1. apríl 2019 eða 1. janúar 2020 auk launahækkunar 1. apríl 2020. Þar sem allar þessar hækkanir komu til framkvæmda 1. apríl 2020 gætir áhrifa þeirra í launavísitölu þessa mánaðar en áhrif af afturvirkum hækkunum koma að jafnaði fram í launavísitölu í þeim mánuði sem þær koma til framkvæmda. Sé horft til síðustu 12 mánaða hefur launavísitalan hækkað um 6,8%.

Breytingar launavísitölu apríl 2019 til apríl 2020
  Frá fyrri mánuði, % Frá fyrra ári %
2019
Apríl 1,5 6,8
Maí 0,7 5,1
Júní -0,1 4,3
Júlí 0,3 4,2
Ágúst 0,0 4,3
September 0,5 4,2
Október 0,4 4,2
Nóvember 0,2 4,2
Desember 0,3 4,5
2020    
Janúar 0,7 4,9
Febrúar 0,1 4,8
Mars 0,3 4,9
Apríl 3,3 6,8

Skýring: Launavísitala er reiknuð og birt skv. lögum nr. 89/1989. Vísitalan miðast við regluleg laun í hverjum mánuði.

Í mars og apríl síðastliðinn fór hluti launafólks ýmist í skert starfshlutfall, var fjarverandi frá vinnu eða missti vinnu vegna farsóttarinnar Covid-19. Slíkar breytingar á vinnutíma launafólks og samsetningu vinnuaflsins hafa almennt ekki áhrif á launavísitölu þar sem henni er ætlað að endurspegla verðbreytingu vinnustundar fyrir fastan vinnutíma. Hins vegar hafa breytingar á reglulegum aukagreiðslum eins og álags- og bónusgreiðslum, sem eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili, áhrif á launavísitölu. Hagstofan birtir aðra mælikvarða á þróun launa en launavísitölu, til dæmis vísitölu heildarlauna, sem endurspeglar verðbreytingar vinnustundar en einnig breytt hlutfall vinnuafls, breytt hlutfall yfirvinnustunda eða samspil þessara þátta.

Áhrif styttingar vinnuviku á launavísitölu
Breytingar á vinnutíma launafólks hafa almennt ekki áhrif á launavísitölu, en það geta breytingar á vinnutímaákvæðum kjarasamninga haft ef þær eru ígildi launabreytinga. Í kjarasamningunum, sem gerðir voru á tímabilinu apríl 2019 til maí 2020, voru gerðar breytingar á vinnutímaákvæðum, þar á meðal stytting vinnutíma, en útfærslur eru mismunandi og áhrif á launavísitölu ólík. Í sumum kjarasamningum er kveðið á um styttingu vinnutíma á ákveðnum tímasetningum en aðrir samningar kveða á um heimild starfsfólks og stjórnenda á einstökum vinnustöðum til þess að semja um styttingu vinnutíma, þá oft samhliða niðurfellingu á fastákveðnum kaffitímum og koma þá sveigjanleg neysluhlé í stað þeirra.

Helstu ákvæði kjarasamninga og áhrif á launavísitölu:

  • Í flestum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er fyrirtækjakafli sem heimilar starfsfólki og stjórnendum að víkja frá vinnutímaákvæðum kjarasamninga með samkomulagi. Til dæmis með því að fella niður fastákveðna kaffitíma og stytta þannig vinnudaginn. Verði slíkar breytingar gerðar hafa þær áhrif á launavísitölu ef vinnutími styttist umfram niðurfellingu fastákveðinna kaffitíma. Niðurfelling slíkra kaffitíma er ekki talin launahækkun í útreikningi á launavísitölu þar sem unnar vinnustundir sem standa að baki mánaðarlaunum breytast ekki.

  • Í kjarasamningum 19 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins, Lífskjarasamningnum dags. 3. apríl 2019, var ákvæðum um styttingu vinnutíma bætt við fyrirtækjakafla samninganna. Þar er kveðið á um heimild til upptöku virks vinnutíma, 36 stunda á viku, samhliða niðurfellingu formlegra kaffitíma og upptöku sveigjanlegra hvíldarhléa á grundvelli samkomulags starfsmanna og stjórnenda fyrirtækja. Vinnutími sem styttist umfram niðurfellingu fastákveðinna kaffitíma kemur til hækkunar á launavísistölu.

  • Í kjarasamningum VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins (Lífskjarasamningnum) var vinnuvika stytt um 45 mínútur á viku frá 1. janúar 2020. Styttingin skal útfærð með samkomulagi á vinnustað en án samkomulags styttist daglegur vinnutími um 9 mínútur miðað við fullt starf. Að öðru leyti eru ákvæði um vinnutíma óbreytt, þar með taldir greiddir kaffitímar. Vinnutímastytting verslunarmanna kemur til hækkunar á launavísitölu þar sem færri vinnustundir eru að baki launa og því hækkar verð vinnustundar.

  • Í kjarasamningi Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins, sem gerður var í maí 2019, styttist vinnutími um 45 mínútur á viku frá 1. janúar 2020. Meginútfærslan er stytting vinnuvikunnar um hálfan dag miðað við fullt starf, á tímabilinu 1. september til 31. maí, verði ekki samið um aðra útfærslu á vinnustað. Breytingin kemur til hækkunar á launavísitölu.

  • Í kjarasamningum Samiðnar, Félags hársnyrtisveina (FHS), Grafíu, VM, Matvís og RSÍ, sem gerður var í maí 2019, voru launagreiðslur í kaffitímum (2 klukkustundir og 55 mínútur á viku) felldar niður frá 1. apríl 2020. Tímakaup hækkar sem því nemur en mánaðarlaun eru óbreytt. Virkur vinnutími styttist ekki og því hefur hækkun tímakaupsins ekki áhrif á launavísitöluna. Í kjarasamningunum er jafnframt kveðið á um að þann 1. janúar 2022 geti starfsmenn einhliða, með samþykki meirihluta í atkvæðagreiðslu, tekið upp virkan vinnutíma, 36 klukkustundir og 15 mínútur á viku, samhliða niðurfellingu formlegra kaffitíma og þannig fengið 50 mínútna vinnutímastyttingu á viku. Slíkar breytingar koma til hækkunar launavísitölu þar sem í þeim felst vinnutímastytting en ekki eingöngu niðurfelling kaffitíma.

  • Í kjarasamningum opinberra starfsmanna er gert ráð fyrir að stytting vinnuvikunnar komi til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2021. Sú stytting nemur 13 mínútum á dag en heimilt er að semja um aðrar útfærslur. Sú breyting kemur til hækkunar á launavísitölu.

Ólíkar útfærslur einstakra vinnustaða á fyrirkomulagi styttingar samkvæmt sömu kjarasamningum hafa sömu áhrif á launavísitölu og skiptir þá ekki máli hvort útfærslan felist í daglegri styttingu, styttri vinnudegi einu sinni í viku eða styttingu safnað upp í frí. Vinnutímastytting, sem kveðið er á um í kjarasamningi, hefur þó ekki sjálfkrafa áhrif á vinnutíma. Til dæmis ef vinnutími starfsfólks á tilteknum vinnustöðum er nú þegar styttri en vinnutími samkvæmt gildandi kjarasamningum. Í einhverjum tilvikum voru gerðir sérstakir fyrirtækjasamningar þannig að stytting vinnutíma næði til allra á vinnustaðnum óháð félagsaðild þeirra.

Stytting vinnutíma á einstökum vinnustöðum mun hafa áhrif á launavísitölu á næstu árum. Í tilfellum þar sem vinnutími er styttur en skráning vinnuskyldu í launakerfum er óbreytt eru gögn leiðrétt samkvæmt upplýsingum frá launagreiðendum. Áhrif vinnutímastyttingar gætti fyrst í launavísitölu í nóvember 2019 en mest voru áhrifin í janúar 2020 vegna styttingar vinnutíma verslunarmanna og starfsmanna fjármálafyrirtækja. Þá hækkaði launavísitalan á milli mánaða um 0,7% en metin hækkun er 0,1% án áhrifa af styttingu vinnutíma. Frá og með nóvember 2019 til apríl 2020 hefur launavísitalan hækkað um 4,8% en er metið sem 4,1% án áhrifa vinnutímastyttingar.

Um launavísitölu Hagstofunnar
Samkvæmt lögum um launavísitölu nr. 89/1989 á launavísitalan að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma. Við framkvæmd mælinga hefur því verið stuðst við það sjónarmið löggjafans að um sé að ræða verðvísitölu og er vinnutíma og samsetningu hópsins sem liggur að baki útreikningum haldið föstum á milli mælinga. Þó að almennt hafi vinnutímabreytingar ekki áhrif á launavísitölu gildir ekki það sama um styttingu vinnuvikunnar en í frumvarpi til laga um launavísitölu kemur fram að breytingar vinnutíma og samsetningu hans skuli ekki hafa áhrif á launavísitölu nema ef um er að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga.

Launavísitala sem sýnir breytingar á verði greiddrar vinnustundar fyrir fasta samsetningu vinnutíma tekur mið af breytingum reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða greidda dagvinnu eða vaktavinnu. Í reglulegum launum er tekið tillit til hvers konar álags- og bónusgreiðslna, svo sem fasta/ómælda yfirvinnu, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Tilfallandi yfirvinnugreiðslur eru ekki hluti reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir, eins og eingreiðslur, sem ekki eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Niðurstöður launavísitölu byggja á gögnum úr launarannsókn Hagstofunnar. Nánari upplýsingar um aðferðir launavísitölu má finna í lýsigögnum.

Talnaefni