Nefnd um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga sem skipuð var af forsætis-ráðherra í janúar 2018 hefur lokið störfum og skilað tillögum.

Í kjölfar gagnrýni sem beint hefur verið að launavísitölu Hagstofu Íslands ákvað nefndin að fá til sín erlendan úttektaraðila á vísitölunni og skyldi viðkomandi meta aðferðafræði, mögulegar skekkjur og gögn sem lögð eru til grundvallar útreikningi launavísitölu og leggja til úrbætur eftir þörfum.

Hagstofan fagnar úttekt dr. Kim Zieschang sem staðfestir að launavísitalan er traust, byggir á aðferðafræðilega sterkum grunni og áreiðanlegum gögnum af nægilegri þekju fyrir útreikning vísitölu. Í úttekinni leggur Dr. Zieschang til að skoðað verði hvort vísbendingar séu um skekkju vegna gæðabreytinga vinnuafls yfir tíma. Jafnframt færir hann rök fyrir því að forðast beri að byggja vísitölur launa á breytingum meðaltals í stað þess að nota hefðbundnar aðferðir verðvísitalna líkt og Hagstofan gerir við útreikning launavísitölu.

Á grundvelli úttektar beinir nefndin þeim tilmælum til Hagstofunnar að skoðað verði til hlítar hvort vænta megi að launavísitalan nái ekki að einangra áhrif af auknum gæðum vinnuafls yfir tíma með hækkandi starfsaldri og aukinni menntun. Hagstofan vinnur að ítarlegri greiningu og verða niðurstöður birtar vorið 2019.

Aðrar umbótatillögur nefndarinnar snerta einnig Hagstofuna. Þannig er lögð áhersla á að áfram verði unnið að bættri þekju launarannsóknar Hagstofunnar samhliða innleiðingu á heildartalningu á launaupplýsingum beint frá launagreiðendum. Auk þess er bent á mikilvægi þess að Hagstofan haldi áfram vinnu við umbætur á vinnutímamælingum og ljúki uppfærslu á starfaflokkunarkerfi. Að lokum er lagt til að stofnuð verði svokölluð kjaratölfræðinefnd sem verði samráðsvettvangur aðila vinnumarkaðarins og stjórnsýslunnar, þar með talið Hagstofunnar.

Hagstofa Íslands leggur ríka áherslu á að vinna hlutlægar hagskýrslur sem gefa notendum traustar og áreiðanlegar upplýsingar. Umbótatillögur nefndarinnar eru mikilvægt innlegg í því verkefni.

Frétt forsætisráðuneytis með skýrslu nefndarinnar
Úttektarskýrsla dr. Kim Zieschang um launavísitölu