FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 09. MARS 2011


Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu hefur verið breytt frá upprunalegri útgáfu. Ný fréttatilkynning var gefin út í staðinn.

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera á 4. ársfjórðungi 2010. Í þeim ársfjórðungi var tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 31 milljarð króna eða sem nemur 8% af áætlaðri landsframleiðslu ársfjórðungsins og 19% af tekjum þess. Á sama tíma 2009 var tekjuafkoman neikvæð um 43 milljarða króna eða 11,2% af landsframleiðslu. Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um ríflega 97 milljarða króna árið 2010 eða 6,3% af landsframleiðslu, en til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 149 milljarða króna árið 2009 eða 10,0% af landsframleiðslu.

Tekjur hins opinbera námu um 651 milljarði króna árið 2010 samanborið við 614 milljarða króna árið áður og er hækkunin milli ára 36 milljarðar króna eða 5,9%. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu tekjurnar 42,3%. Mest er hækkunin í tryggingagjöldum (um 19 milljarðar) og sköttum á vöru og þjónustu (um 17 milljarðar),  sem skiluðu um 36 milljörðum króna meiri tekjum árið 2010 en árið á undan. Hækkunin í tekju- og eignarsköttum nam um 12 milljörðum króna, en aðrar tekjur — aðallega vaxtatekjur og sala á vöru og þjónustu — lækkuðu hins vegar um 13 milljarða króna.

Útgjöld hins opinbera reyndust 748 milljarðar króna árið 2010 eða sem svarar til 48,6% af landsframleiðslu ársins og lækkuðu um 2% milli ára. Stærstu útgjaldaliðirnir eru laun sem áætluð eru 225 milljarðar króna, kaup á vöru og þjónustu 189 milljarðar króna og félagslegar tilfærslur til heimila 120,5 milljarðar króna. Þá er talið að vaxtagjöld hins opinbera hafi verið 93 milljarðar króna árið 2010 (lækkun um 5,6%) og opinber fjárfesting 40 milljarðar króna (lækkun um 31%). Aðrir útgjaldaliðir hafa staðið í stað eða hækka lítillega í krónum talið.  

Hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 585 milljarða króna í lok 2010 samanborið við um 551 milljarð króna neikvæða eign árið 2009. Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.629 milljörðum króna í lok 2010 eða sem nam 105,8% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar nam skuld ríkissjóðs 1.566 milljörðum króna árið 2009 eða sem svarar 104,8% af landsframleiðslu.

Fjármál hins opinbera á 4. ársfjórðungi 2010 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.