Á fundi hagstofustjóra Evrópusambandsins og EFTA ríkjanna í Lúxemborg 7. febrúar sl. var samþykkt meðfylgjandi yfirlýsing til stuðnings þeim aðgerðum sem núverandi hagstofustjóri Grikklands hefur unnið að við endurbætur á hagskýrslum. Með yfirlýsingunni vilja hagstofustjórarnir senda skýr skilaboð um að hagskýrslur eru unnar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum sem tekið hefur áratugi að þróa til að tryggja að þær séu sambærilegar milli ríkja. Einnig að í tölfræðisamstarfinu eru meginreglur um hagskýrslugerð teknar mjög alvarlega til að tryggja faglegt sjálfstæði hagstofa og gæði hagtalna.