Ný útgáfa af kennslukerfi Háskóla Íslands er komin út (https://beta.tutor-web.net), en þar geta nemendur í framhalds- og háskólum nýtt sér raunveruleg gögn í verkefnum og æfingum. Eldri útgáfan (http://tutor-web.net) verður áfram aðgengileg. Allur hugbúnaður sem kerfið notar er frjáls og opinn.

Opnu gagnasöfnin í kerfinu eru opinberar hagskýrslur frá Hagstofu Íslands, Hagstofu Evrópusambandsins og hagstofum Hollands, Svíþjóðar og Finnlands um mannfjölda, húsnæði, menntun, vinnumarkað, lífskjör, laun og tekjur og heilsu. Nemendur geta einnig bætt við eigin gögnum.

Æfingarnar í nýju útgáfunni eru byggðar upp á annan hátt og takmarkast ekki lengur við fjölvalsspurningar og fyrirframgefnar spurningar heldur er efnið lifandi þannig að nemendur og kennarar geta bætt við nýjum spurningum. Enn fremur geta notendur skrifað umsögn um kennsluefnið og mælt með nýju efni.

Breytingar á kennslukerfinu voru þróaðar af Háskóla Íslands í samvinnu við Hagstofu Íslands og styrktar af nokkrum aðilum s.s. European Union's Horizon 2020 Research and Innovation Programme. Hægt er að nálgast nýja kennslukerfið á vef Hagstofunnar.