Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri og María Heimisdóttir landlæknir undirrituðu í dag samkomulag um samstarf varðandi framkvæmd evrópsku heilsufarsrannsóknarinnar (EHIS) og nýrrar Landskönnunar á hreyfingu, kyrrsetu og svefni á Íslandi (Landskönnun HKS).
Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd evrópsk rannsókn sem framkvæmd er á fjögurra ára fresti og verður framkvæmd nú á seinni hluta árs 2025. Markmið rannsóknarinnar er að mæla heilsufar, áhrifaþætti á heilsufar, notkun heilbrigðisþjónustu og mögulegar takmarkanir eru á aðgengi að heilbrigðisþjónustu í hverju landi fyrir sig.
Þátttakendum í rannsókninni, sem eru á aldrinum 20 til 69 ára, verður einnig boðið að taka þátt í samevrópskri rannsókn á vegum embættis landlæknis sem miðar að því að greina hreyfingu, kyrrsetu og svefn fólks á áðurnefndu aldursbili.
Niðurstöður rannsóknarinnar munu veita mikilvægar upplýsingar um heilsufar íbúa landsins sem hægt verður að bera saman við fyrri ár þegar sem rannsóknin hefur farið fram og niðurstöður annara landa í Evrópu. Niðurstöðurnar veita stjórnvöldum, fræðasamfélaginu, fjölmiðlum og almenningi traustar upplýsingar fyrir umræðu og ákvarðanatöku í heilbrigðismálum á Íslandi sem stuðla að bættri heilsu og líðan landsmanna.
María Heimisdóttir landlæknir og Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri handsala samstarfið að undirritun lokinni.