FRÉTT ÝMISLEGT 08. OKTÓBER 2008


Norræna hagtöluárbókin 2008 er nú komin út og er til sölu hjá Hagstofu Íslands. Þetta er 46. árgangur bókarinnar. Í henni er því lýst hvað er líkt og ólíkt með norrænu þjóðunum. Auk Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar nær bókin til sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja.

Hagtöluárbókin er gefin út af Norrænu ráðherranefndinni og unnin í samvinnu við norrænu hagstofurnar. Halldór Ásgrímsson er formaður ráðherranefndarinnar og ritar formála að bókinni. Að þessu sinni tekur útgáfan stakkaskiptum, en útliti bókarinnar hefur verið gjörbreytt til þess að gera efni hennar aðgengilegra. Eins og mörg undanfarin ár er texti bókarinnar bæði á ensku og sænsku.

Hagtölur á Norðurlöndum bornar saman
Í hagtöluárbókinni er lögð áhersla á að samanburður Norðurlandanna sé sem víðtækastur. Þar má finna allar helstu upplýsingar um mannfjölda, lífskjör, orkumál, umhverfismál, tækni og vísindi, skólamál, efnahagsmál, verðlag og neyslu svo að eitthvað sé nefnt.

Í bókinni kemur t.d. fram að íbúafjöldi á Norðurlöndunum hefur tvöfaldast frá upphafi 20. aldar, atvinnulausum hefur fækkað um 30% síðastliðin 10 ár og meðalaldur í löndunum er nú 40,3 ár. Umsóknum um pólitískt hæli hefur fjölgað um 62% í norrænu ríkjunum frá árinu 2005 til 2007. Árið 1991 voru fæðingarorlofsdagar feðra á Íslandi einungis 0,1% en 32,6% árið 2006. Orkunotkun á hvern mann er mest á Íslandi en lægst í Danmörku.

Þá má sjá í bókinni að á Íslandi hefur íbúðarverð hækkað verulega síðan 1995, svo og verð á rafmagni, vatni og eldsneyti. Á sama tíma hefur mestur vöxtur verið í samgöngum á Grænlandi,  heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð en menntun í Danmörku, Finnlandi, Álandseyjum og Noregi.

Aðgangur að gagnabanka á netinu
Að þessu sinni bryddar ráðherranefndin upp á þeirri nýjung að bjóða frían aðgang að gagnabanka á netinu þar sem lesendur árbókarinnar geta nálgast rækilegri upplýsingar en rúmast í prentútgáfunni. Aðgangur að gagnabankanum er að finna á vef Norrænu ráðherranefndarinnar. Efni gagnabankans er sínýtt, en nýjar hagtölur eru færðar inn í hann jöfnum höndum.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.