Feður taka færri daga í fæðingarorlof
Feður tóku að meðaltali 79 daga í fæðingarorlof árið 2010 en 103 daga árið 2008, hefur því dögum sem feður tóku í fæðingarorlof fækkað að meðaltali um 24 daga frá efnahagshruninu. Konur tóku hins vegar 175 daga að meðaltali árið 2010 á móti 178 dögum árið 2008. Viðtakendum greiðslna vegna fæðingarorlofs fækkaði á milli ára, bæði körlum og konum, og helst það í hendur við fækkun fæðinga á milli ára.

Þessar upplýsingar má finna í Landshögum 2011, hagtöluárbók Hagstofu Íslands, sem kemur út í dag, miðvikudaginn 16. nóvember. Landshagir eru lykilrit um opinbera hagskýrslugerð á Íslandi og er yfirlit tölulegra upplýsinga um flesta þætti efnahags- og félagsmála.

Af öðrum upplýsingum í Landshögum 2011 má m.a. nefna þessar:

  • Öll heimili á landinu með börn yngri en 16 ára hafa tölvu
  • Á hverja 1.000 íbúa eru 1.071 GSM-áskriftir 
  • 78% af allri raforkunotkun er vegna stóriðju
  • 14,3% íbúa landsins 15–79 ára reykja daglega
  • Tveir af hverjum þremur sem útskrifast úr háskóla eru konur 
  • 43% íbúa Lúxemborgar eru erlendir ríkisborgarar


Landshagir eru til sölu í afgreiðslu Hagstofu Íslands að Borgartúni 21a og kostar eintakið 3.500 krónur. Bókin er einnig til sölu í nokkrum helstu bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Þá má panta ritið á vefnum en einnig má nálgast efni Landshaga endurgjaldslaust á vef Hagstofu Íslands.

Landshagir 2011 – Útgáfa