Frá árinu 1990 hefur íbúum Íslands fjölgað um næstum 26 prósent, það er mesta aukning á Norðurlöndum samkvæmt nýjum tölum úr Norrænum hagtölum.

Íslendingum fjölgaði frá árinu 1990 úr 254.000 í 322.000 sem er mun meiri aukning en annars staðar á Norðurlöndum. Íbúum Álandseyja og Noregs fjölgaði einnig nokkuð, um 17 og 18 prósent. Þessi þrjú lönd eru einnig fremst í flokki þegar litið er til nýjustu spár um fólksfjölgun. Þar eru Álandseyjar og Noregur þó framar Íslandi. Til ársins 2040 er reiknað með að íbúum Noregs fjölgi um 32 prósent og Álandseyja um 29 prósent. Talið er að Íslendingum fjölgi um u.þ.b. 26 prósent á sama tímabili.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Norrænu hagtöluárbókinni 2013, sem kemur út í dag 27. nóvember. Þar er einnig að finna upplýsingar um að:

  •  Fjöldi aldraðra í Danmörku verði mestur árið 2040
  •  Færeyskar konur lifi lengst á Norðurlöndum
  •  Fæst tilfelli krabbameins eru meðal grænlenskra karla
  •  Fæstir eru í hlutastarfi í Finnlandi
  •  Mjög lítið atvinnuleysi er meðal ungs fólks á Álandseyjum
  •  Noregur sé mesta fiskveiðiþjóð á Norðurlöndum
  •  Sænskar mæður verði sífellt eldri

Í bókinni sem gefin er út af Norrænu ráðherranefndinni og kostar 6.999 krónur, eru samanburðartölur um norrænu ríkin fimm, Danmörku, Finnland, Ísland, Noreg og Svíþjóð og Færeyjar, Grænland og Álandseyjar.  Þá fylgir henni ókeypis aðgangur að gagnagrunni með þúsundum talna um norræn samfélög.

Norræna hagtöluárbókin 2013 - útgáfa