FRÉTT ÝMISLEGT 20. OKTÓBER 2023

Haldið er upp á Evrópska tölfræðidaginn í dag, föstudaginn 20. október, en markmiðið með deginum er að vekja athygli á þýðingu og mikilvægi evrópskra hagtalna fyrir samfélög álfunnar og ekki síst almenna borgara.

Hagstofa Íslands sendir frá sér myndskeið í tilefni dagsins þar sem fjallað er um og hvatt til þátttöku í fyrirhugaðri tímarannsókn þar sem ætlunin er að varpa ljósi á það með hvaða hætti fólk ver tíma sínum í samanburði við önnur Evrópuríki. Ekki síst með tilliti til hlutdeildar fólks í ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum eftir kyni.

Hagstofur Evrópuríkja hafa á undanförnum áratugum unnið náið saman í gegnum Evrópska hagskýrslusamstarfið sem snýst einkum um það að samræma aðferðir og mælingar svo mögulegt sé að bera þær saman á milli landa.

Með áreiðanlegum tölfræðilegum upplýsingum er rennt stoðum undir lýðræðislega umræðu og stjórnvöldum, fyrirtækjum og einstaklingum gert auðveldara að taka upplýstar ákvarðanir um framtíðina.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.