Edda Rós Karlsdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri hagtalna hjá Hagstofu Íslands en hún hefur undanfarin tólf ár starfað hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) í Washington að umbótaverkefnum á sviði fjármálastöðugleika. Meðal annars sem yfirmaður sendinefnda á vegum stofnunarinnar. Áður starfaði Edda Rós hjá AGS á Íslandi í fjögur ár og byggði þar á undan upp og leiddi greiningardeildir Búnaðarbankans og síðan Landsbankans í átta ár. Þá hefur hún enn fremur starfað sem hagfræðingur Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og forstöðumaður kjararannsóknarnefndar (KRN).
Edda Rós er með framhaldsmenntun í þjóðhagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og fjölbreytta reynslu af hagnýtingu tölfræðigagna um efnahag, vinnumarkað, fasteigna- og fjármálamarkaði. Hagtölur eru nýtt svið innan Hagstofunnar sem til varð við breytingar á skipuriti stofnunarinnar síðasta haust en markmið með breytingunum er að gera hana betur í stakk búna til þess að mæta eftirspurn eftir aðgengilegum og áreiðanlegum gögnum og upplýsingum. Undir sviðið falla efnahagsmál, félagsmál og spár.
„Við bjóðum Eddu Rós hjartanlega velkomna til starfa. Það er mikill fengur fyrir Hagstofuna að fá jafn reynslumikinn einstakling til forystu. Hún hefur ríkan skilning á mikilvægi traustra opinberra hagtalna fyrir upplýsta stefnumótun, lýðræðislega umræðu og heilbrigt samfélag og brennandi áhuga á taka þátt í að efla enn frekar starfsemi stofnunarinnar,“ segir Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri.
Edda Rós hefur störf á Hagstofunni 1. mars næstkomandi.