Ársskýrsla 2012Ársskýrsla Hagstofu Íslands fyrir árið 2012 hefur nú verið gefin út. Er þetta fimmta ársskýrslan sem Hagstofan sendir frá sér frá því að hún varð sjálfstæð stofnun 2008.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu áherslumálum stofnunarinnar árið 2012 og þeim fjármunum sem varið er til hagskýrslugerðar. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að Hagstofan birtir tölfræði um framvindu efnahags- og félagsmála í samræmi við innlendar og alþjóðlegar skuldbindingar nær hvern virkan dag ársins. Um 70-80% af hagtölum er safnað að kröfu alþjóðastofnana, einkum Evrópusambandsins. Um starfsemi Hagstofunnar gilda rúmlega 250 bindandi gerðir Evrópusambandsins auk innlendrar lagasetningar.
 
Auk skýrslu yfirstjórnar og umfjöllunar um fjármál og rekstur er í skýrslunni fjallað um samstarf við notendur, afnot af gögnum, útgáfur Hagstofunnar, starfsmannamál og erlent samstarf.

Skýrslan er 32 síður og hana prýðir fjöldi ljósmynda og skýringarmynda.

Ársskýrsluna má skoða á vefnum en hana má einnig panta og fá senda í pósti notendum að kostnaðarlausu.