FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 20. FEBRÚAR 2023

Heildarútgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á árinu 2021 námu rúmlega 91 milljarði króna en það jafngildir 2,80% af vergri landsframleiðslu (VLF). Er þetta hæsta hlutfall útgjalda til málaflokksins af vergri landsframleiðslu sem mælst hefur frá því að Hagstofa Íslands tók við umsjón tölfræðinnar árið 2014.

Árið 2020 voru útgjöldin 72,7 milljarðar króna (2,47%) og árið á undan 70,8 milljarðar (2,32%). Hlutfallsleg útgjöld til rannsókna og þróunar af vergri landsframleiðslu hafa aukist um 0,33 prósentustig á milli ára.

Gagnasöfnun Hagstofunnar nær yfir fyrirtæki, sjálfseignastofnanir, háskólastofnanir og aðrar opinberar stofnanir. Skiptust heildarútgjöldin þannig að útgjöld fyrirtækja og sjálfseignastofnana voru 65,2 milljarðar króna, útgjöld háskólastofnana voru 23,2 milljarðar og heildarútgjöld annarra opinberra stofnanna tæpir 2,6 milljarðar.

Um gögnin
Gögnunum er safnað árlega frá háskólastofnunum og öðrum opinberum stofnunum. Gagnasöfnun fyrirtækja og sjálfseignarstofnana fer fram annað hvert ár og snúa þá spurningar annars vegar að útgjöldum liðins árs og hins vegar að áætluðum útgjöldum það ár sem listinn er lagður fyrir. Tölum fyrir árið 2021 var safnað á þriðja ársfjórðungi ársins 2022.

Tölur um heildarútgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru háðar breytingum á útreikningum á landsframleiðslu en jafnframt geta tölur fyrri ára verið uppfærðar í kjölfar síðari gagnasafnana.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.