FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 23. JANÚAR 2020

Á árunum 2016-2018 settu 56% íslenskra fyrirtækja nýjungar á markað, innleiddu nýjungar í starfseminni, eða þá að þau unnu að nýjungum sem ekki voru settar á markað á tímabilinu.

Fyrirtæki sem settu nýja, eða merkjanlega breytta vöru eða þjónustu á markað voru 29% af heildinni, þar af 82% með vörur og 72% með þjónustu. Á árunum 2014-2016 átti það sama við um 33% fyrirtækja, þar af 78% með vörur og 55% með þjónustu. Munur á milli tímabila kemur þar með helst fram í því að nýjungar tengdar vörum eru að dragast saman en að nýjungar tengdar þjónustu eru að aukast. Hér skal þó hafa í huga að skilin á milli vöru og þjónustu eru að mestu leyti háð túlkun svarenda.

Auk þess að hafa sett nýja eða merkjanlega breytta vöru eða þjónustu á markað, töldust fyrirtæki vera nýjungagjörn ef merkjanlegar breytingar voru innleiddar í starfsemi þeirra, en það átti við um 44% af heildinni.

Þá töldust fyrirtæki einnig nýjungagjörn ef unnið var að þróun nýjunga á þjónustu eða vörum á tímabilinu án þess að þær færu á markað og átti það við um 40% fyrirtækja.

Um alþjóðlega mælingu er að ræða, en niðurstöður fyrir Evrópusambandsríkin og EES verða ekki birtar fyrr en síðar á árinu. Af nágrannalöndum Íslands hafa niðurstöður verið birtar í Noregi og Svíþjóð, en í Noregi eru 61% fyrirtækja nýjungagjörn, en 55% í Svíþjóð.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.