FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 08. MARS 2007

Að meðaltali voru tölvur á 84% íslenskra heimila og 83% heimila hér á landi voru tengd interneti árið 2006. Það ár höfðu 62% heimila í aðildarlöndum Evrópusambandsins tölvu og 51% þarlendra heimila voru tengd interneti.

Notkun tölvu og internets er afar útbreidd hér á landi en árið 2006 notuðu 90% Íslendinga á aldrinum 16–74 ára tölvu og 88% þeirra notuðu internet. Á sama tíma notuðu 61% íbúa Evrópusambandsins tölvu og 54% þeirra notuðu internet.

Evrópsk fyrirtæki hafa nær öll innleitt tölvur og internet í daglega starfsemi sína. Þannig lá hlutfall evrópskra fyrirtækja með tölvu á bilinu 89–100% árið 2006 og 75–99% evrópskra fyrirtækja voru tengd interneti.

Nær öll fyrirtæki hér á landi höfðu átt í samskiptum við opinbera aðila um internet árið 2006. Það ár höfðu að meðaltali 64% fyrirtækja í ESB-löndunum átt í rafrænum samskiptum við hið opinbera. Hlutfall einstaklinga á aldrinum 16–74 ára sem notuðu internet til samskipta við opinbera aðila var hæst hér á landi árið 2006 eða 61%. Á sama tíma var hlutfallið 24% að meðaltali í aðildarlöndum Evrópusambandsins. Íslendingar sýna því almennt mikinn áhuga að sækja sér ýmsa opinbera þjónustu um internet.

Árið 2005 störfuðu 422 fyrirtæki með ríflega 6.100 starfsmenn í upplýsingatækniiðnaði hér á landi. Velta þessara fyrirtækja nam rétt tæpum 100 milljörðum króna þetta sama ár.

Verðmæti innfluttra upplýsingatæknivara nam 46 milljörðum króna árið 2005. Sama ár voru fluttar út upplýsingatæknivörur fyrir ríflega 840 milljónir íslenskra króna.

Í tengslum við UT daginn sem haldinn er hér á landi þann 8. mars gefur Hagstofan út tvö hefti um íslenskt upplýsingasamfélag. Hið fyrra er samantekt á niðurstöðum úr samræmdum evrópskum könnunum á notkun heimila, einstaklinga og fyrirtækja á upplýsingatækni og interneti. Í hinu heftinu birtir Hagstofan tölur yfir fjölda starfandi fyrirtækja í upplýsingatækniiðnaði, fjölda starfsmanna og veltu fyrirtækja í þessum geira á árunum 1998–2005. Að auki eru birtar tölur yfir verðmæti upplýsingatæknivara sem fluttar voru inn og út úr landi árin 2000–2005.

Ísland í evrópsku upplýsingasamfélagi 2006 - Hagtíðindi

Íslenskur upplýsingatækniiðnaður 1998-2005 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.