Ísland er með hæsta hlutfall netttengdra heimila í Evrópu og jafnframt hæsta hlutfall netnotenda. Í 32 Evrópulöndum eru árlega framkvæmdar rannsóknir á upplýsingatækninotkun einstaklinga og fyrirtækja. Niðurstöður fyrir Ísland voru birtar á vef Hagstofu Íslands í september, en í desember gaf Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, út helstu niðurstöður fyrir öll þau lönd sem tóku þátt í rannsókninni.

Fyrirtækjarannsóknin nær yfir þau fyrirtæki sem eru að lágmarki með 10 starfsmenn, en fjármálafyrirtæki eru undanskilin. Eru 27% íslenskra fyrirtækja með starfandi sérfræðing í upplýsingatækni, en er það hlutfall 21% í löndum Evrópusambandsins. 64% íslenskra fyrirtækja útvega starfsfólki tæki til að tengjast netinu þráðlaust. Var það hlutfall 48% í löndum Evrópusambandsins, en 68% í Noregi.

Rannsókn einstaklinga leiddi í ljós að 47% netnotenda á aldrinum 16-74 ára tengjast netinu með eftirfarandi þráðlausum tækjum: fartölvu, lófatölvu eða spjaldtölvu, en er það hlutfall 33% í Evrópusambandinu öllu. Algengast var að einstaklingar tengdust með slíkum tækjum í Noregi, 69%, en næstalgengast í Svíðjóð og Bretlandi, 51%.

Hvað nethegðun einstaklinga varðaði höfðu 67% netnotenda á Íslandi birt skilaboð á samfélagsmiðlum, en var það hlutfall 52% í löndum Evrópusambandsins. 90% íslenskra netnotenda nota vefbanka og er það hlutfall eingöngu hærra (91%) í Noregi og í Finnlandi.

Niðurstöður fyrir Evrópu hafa nú verið birtar á vef Hagstofu Íslands.

Talnaefni