Nýleg rannsókn Hagstofu Íslands um kaup fyrirtækja á auglýsingum á netinu leiddi í ljós að helmingur íslenskra fyrirtækja með að lágmarki 10 starfsmenn greiddu fyrir auglýsingar á netinu árið 2017. Að meðaltali var fjórðungi birtingarkostnaðar varið til auglýsingakaupa hjá erlendum fyrirtækjum.

Rannsóknin var lögð fyrir 959 fyrirtæki með að lágmarki 10 starfsmenn, í þeim atvinnugreinum sem upplýsingatæknirannsóknir ná yfir samkvæmt aðferðafræði Hagstofu Evrópusambandsins*. Svarhlutfall var 80%. Fleiri niðurstöður úr rannsókn á upplýsingatækninotkun fyrirtækja verða birtar síðar.

*Eftirfarandi atvinnugreinar eru undanskildar (skv. ÍSAT-atvinnugreinaflokkuninni): Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar (ÍSAT 01–03); námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu (ÍSAT 05–09); opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (ÍSAT 84); fræðslustarfsemi (ÍSAT 85); heilbrigðisþjónusta (ÍSAT 86); umönnun á dvalarheimilum og félagsþjónusta án dvalar á stofnun (ÍSAT 87–88); menningar-, íþrótta- og tómstundastafsemi (ÍSAT 90–93); félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi (ÍSAT 94–96).