FRÉTT VINNUMARKAÐUR 27. FEBRÚAR 2020

Fjöldi atvinnulausra var rétt um 7.000 í janúar samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar eða 3,4% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 81% á meðan árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi var 78%.

Árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis síðustu sex mánaða heldur áfram að vera stöðug, en leitni hlutfalls starfandi stígur lítið eitt upp á við, eða úr 77,6% í ágúst í 77,9% í janúar. Einnig má sjá örlítinn stíganda upp á við í hlutfalli atvinnuþátttöku yfir sama tímbil, eða um 0,2 prósentustig.

Samkvæmt óleiðréttri mælingu er áætlað að um 209.000 manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í janúar 2020. Það jafngildir 80,7% (±2,6) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að um 201.500 (±3.000) manns hafi verið starfandi, en 7.400 (±700) án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var þannig rétt um 77,8% (±2,7) á meðan óleiðrétt atvinnuleysi mældist 3,6% (±1,1).

Þegar hlutfall atvinnulausra er borið saman við janúar í fyrra má sjá að atvinnuleysi hefur aukist um 0,7 prósentustig og hlutfall starfandi lækkað yfir sama tímabil um 1,4 prósentustig.

Allar fjöldatölur eru vigtaðar eftir aldri og kyni og námundaðar að næsta hundraði. Tölur fyrir janúar 2020 eru bráðabirgðatölur þar til fyrsta ársfjórðungi lýkur.

Flæðirit — Vinnumarkaður 16–74 ára, janúar 2020 – Óleiðrétt mæling

Samtala undirliða þarf ekki að koma heim við heildartölur vegna námundunar. Öryggisbil (95%), atvinnuleysi: Alls ±1,1; karlar ±1,5; konur ±1,9

Tafla 1. Vinnumarkaður í janúar — óleiðrétt mæling
Öryggisbil Öryggisbil Öryggisbil
 2018 (±95%)2019 (±95%)2020 (±95%)
Alls 16–74 ára
Atvinnuþátttaka 81,3 2,3 81,6 2,1 80,7 2,6
Hlutfall starfandi 78,2 2,5 79,2 2,2 77,8 2,7
Atvinnuleysi 3,8 1,4 2,9 1,1 3,6 1,1
Vinnustundir 38,5 1,2 38,4 1,0 37,8 0,8
Vinnuafl 201.100 5.600 207.600 5.300 209.000 3.100
Starfandi 193.400 6.100 201.500 5.600 201.500 3.000
Atvinnulausir 7.700 2.900 6.000 2.300 7.400 700
Utan vinnumarkaðar 46.100 5.600 46.800 5.300 50.200 2.000
Áætlaður mannfjöldi 247.200 254.400 259.000

Tafla 2. Vinnumarkaður síðustu 6 mánuði — árstíðaleiðrétting
 ágú.19sep.19okt.19nóv.19des.19jan.20
Alls 16–74 ára
Atvinnuþátttaka 80,5 80,9 81,1 80,5 80,7 81,0
Hlutfall starfandi 77,3 77,9 78,1 77,4 77,6 78,0
Atvinnuleysi 4,4 3,6 3,4 4,1 3,9 3,4
Vinnustundir 40,1 40,1 40,4 40,3 39,9 39,6
Vinnuafl 205.700 208.100 210.200 205.800 209.100 208.700
Starfandi 196.500 200.500 202.800 198.200 202.200 202.700
Atvinnulausir 8.900 6.800 7.100 7.100 7.300 7.000
Utan vinnumarkaðar 51.100 49.200 47.500 52.600 49.700 50.400
Áætlaður mannfjöldi 256.800 257.300 257.900 258.400 258.900 259.100

Tafla 3. Vinnumarkaður síðustu 6 mánuði — árstíðaleiðrétt leitni
 ágú.19sep.19okt.19nóv.19des.19jan.20
Alls 16–74 ára
Atvinnuþátttaka 80,7 80,8 80,8 80,7 80,7 80,9
Hlutfall starfandi 77,6 77,8 77,8 77,7 77,6 77,9
Atvinnuleysi 3,6 3,7 3,7 3,7 3,8 3,7
Vinnustundir 40,0 40,1 40,2 40,2 40,1 40,0
Vinnuafl 208.000 208.200 208.400 208.600 208.900 209.400
Starfandi 199.300 200.000 200.800 201.100 201.200 202.600
Atvinnulausir 7.300 7.400 7.300 7.300 7.200 7.300
Utan vinnumarkaðar 49.000 49.200 49.500 49.700 49.800 49.700
Áætlaður mannfjöldi 256.800 257.300 257.900 258.400 258.900 259.200

Um gögnin
Vinnumarkaðsrannsóknin í janúar 2020 nær til 5 vikna, frá 30. desember 2019 til og með 2. febrúar 2020. Í úrtak völdust af handahófi 1.909 einstaklingar á aldrinum 16–74 ára sem höfðu lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir, eða reyndust búsettir erlendis, var nettóúrtakið 1.868 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 1.183 einstaklingum og jafngildir það 63,3% svarhlutfalli.

Undanfarin ár hefur þátttaka í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar farið minnkandi. Síðan 2012 hefur svarhlutfall í rannsókninni farið úr því að vera um 85% í um 60%. Þótt þessi þróun í svarhlutfalli sé sambærileg þróun svarhlutfalls í vinnumarkaðsrannsóknum annarra Evrópuríkja eru mánaðarlegar tölur úr íslensku vinnumarkaðsrannsókninni sérstaklega viðkvæmar fyrir sveiflum í svörun einstakra hópa sökum þess hversu fámennt úrtakið er. Einn þessara fámennu hópa eru þeir sem eru atvinnulausir á íslenskum vinnumarkaði.

Í gögnum vinnumarkaðsrannsóknar í janúar 2020 mátti sjá óvenju lágt svarhlutfall meðal þeirra sem skráðir voru á atvinnuleysisskrá á sama tímabili. Til þess að stemma stigu við brottfalli í mælingu á atvinnuleysi var gripið til þess ráðs að tilreikna atvinnuleysisstöðu fyrir þá sem sannarlega voru á atvinnuleysisskrá í janúar og höfðu talist atvinnulausir í rannsókninni þegar síðast var haft samband við þá - eða skilgreindu sig sjálfir sem atvinnulausa.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að Hagstofan miðar við skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofunarinnar á atvinnuleysi. Samkvæmt þessari skilgreiningu teljast þeir atvinnulausir sem 1) eru án vinnu á viðmiðunartímanum, 2) eru virkir í atvinnuleit á íslenskum vinnumarkaði og 3) gætu hafið störf innan tveggja vikna ef þeim byðist starf.

Skilgreiningin Hagstofunnar á atvinnuleysi er þannig sértækari en rétturinn til atvinnuleysisbóta segir til um - sem skýrir raunar að hluta þann mun sem sjá má á útgefnum tölum Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar á atvinnuleysi á Íslandi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.