FRÉTT VINNUMARKAÐUR 11. ÁGÚST 2022

Helstu niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands fyrir annan ársfjórðung 2022 sýna bætta stöðu vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði frá árinu áður.

Fjöldi starfandi eykst
Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 81,6% á öðrum ársfjórðungi 2022 sem er aukning um 1,4 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2021. Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2022 var 210.600 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 78,1%. Frá öðrum ársfjórðungi 2021 til annars ársfjórðungs 2022 fjölgaði starfandi fólki um 16.100 og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 4,2 prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 74,8 % og starfandi karla 81,1%. Starfandi konum fjölgaði um 8.900 og körlum um 7.200.

Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 78,2% og utan höfuðborgarsvæðis 77,9%. Til samanburðar var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 74,9% og 72,1% utan höfuðborgarsvæðisins á öðrum ársfjórðungi 2021.

Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi
Á öðrum ársfjórðungi 2022 töldust að meðaltali 9.500 einstaklingar vera atvinnulausir eða um 4,3% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Til samanburðar voru um 16.700 einstaklingar atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2021 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 7,9%.

Mjög dró úr atvinnuleysi kvenna á milli ára en það mældist nú 3,2% og hafði þá lækkað um 6,1 prósentustig frá öðrum ársfjórðungi 2021. Á sama tímabili lækkaði atvinnuleysi karla úr 7,6% í 5,2% eða um 2,4 prósentustig.

Á öðrum ársfjórðungi hvers árs mælist atvinnuleysi yfirleitt alltaf hæst miðað við aðra fjórðunga ársins og stafar það af því að þá sækir ungt fólk og námsmenn út á vinnumarkaðinn í leit að sumarstörfum. Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 13,9% sem er talsverð lækkun frá sama ársfjórðungi árið 2021 þegar það var 20,0%. Á tímabilinu minnkaði atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um fjögur prósentustig eða úr 6,5% í 2,5%. Atvinnuleysi minnkaði einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um 0,8 prósentustig, úr 3,4% á öðrum ársfjórðungi 2021 í 2,5% á öðrum ársfjórðungi 2022.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.