FRÉTT VINNUMARKAÐUR 20. ÁGÚST 2020

Annar ársfjórðungur á íslenskum vinnumarkaði var, eins og sá fyrsti, óvenjulegur og einkenndist öðru fremur af takmörkunum á vinnu fólks vegna kórónaveirunnar (Covid-19). Þessara áhrifa gætir að nokkru leyti í mælingum á vinnuaflinu.

Atvinnuleysi 6,9%
Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 74 ára var 79,6% af mannfjölda á öðrum ársfjórðungi 2020, eða að jafnaði um 208.100 manns. Þar af töldust að meðaltali 14.300 manns vera atvinnulausir eða um 6,9%. Á sama tíma voru um 2.600 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 1,3% starfa samanber áður útgefnar tölur. Til samanburðar voru um 9.400 manns atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2019 og jókst atvinnuleysi um 2,5 prósentustig á milli ára.

Sé horft til aldurshópsins 16 - 24 ára var atvinnuleysi 17,7% innan hans en hafði verið 10,5% árinu áður. Á höfuðborgarsvæðinu var atvinnuleysi 16-24 ára 19,4% samanborið við 10,4% árið áður. Utan höfuðborgarsvæðisins var atvinnuleysi 14,3% en var 10,9% árið á undan í sama aldurshópi.

Hærra hlutfall utan vinnumarkaðar
Á öðrum ársfjórðungi 2020 voru 53.500 manns, eða 20,4%, utan vinnumarkaðar og er það aukning um 9.500 manns, eða 3,3 prósentustig, frá árinu áður. Á sama tímabili jókst áætlaður mannfjöldi á aldrinum 16 til 74 ára úr um 256.900 í um 261.500 manns eða um 1,8%.

Í tölum Hagstofunnar um vinnumarkaðinn í júní 2020 mátti einnig merkja aukningu á hlutfalli utan vinnumarkaðar þó að atvinnuleysi hafi mælst svipað og í júní 2019. Mánaðarlegt hlutfall starfandi var rúmu prósentustigi lægra í júní 2020 en árið áður og hlutfall utan vinnumarkaðar tæpu prósentustigi hærra.

Hlutfall starfandi lækkar
Fjöldi starfandi fólks var um 193.700 á öðrum ársfjórðungi 2020 sem er talsverð fækkun frá öðrum ársfjórðungi 2019 eða um 9.800 manns. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 74,1% og hafði lækkað um 5,1 prósentustig á milli ára. Fjöldi starfandi í fullu starfi minnkaði um 9.300 manns frá fyrra ári en af starfandi fólki voru 78,5% í fullu starfi sem er lækkun um 0,8 prósentustig frá öðrum ársfjórðungi 2019. Hlutfall starfandi af mannfjölda lækkaði á milli ára í öllum aldursflokkum, helst á meðal fólks á aldrinum 16 - 24 ára eða úr 78,3% árið 2019 í 66,6% nú í ár.

Aukning launafólks í fjarvinnu
Á öðrum ársfjórðungi 2020 unnu að jafnaði 42,5% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Þar af var launafólk sem vann aðalstarf sitt venjulega í fjarvinnu heima 6,5% en 35,9% launafólks vann stundum í fjarvinnu. Þetta er nokkur aukning frá fyrra ári þegar 30,0% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára sinnti aðalstarfi í fjarvinnu heima, 3,5% unnu þá venjulega fjarvinnu og 26,5% stundum. Fjarvinna heima tekur aðeins til vinnu sem tengist aðalstarfi einstaklinga en ekki til heimilisstarfa eða annarra starfa heima við.

Veruleg fækkun vinnustunda
Á öðrum ársfjórðungi var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 36,7 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 33,6 stundir hjá konum og 39,1 stundir hjá körlum. Til samanburðar var meðalfjöldi vinnustunda 39,7 klukkustundir á öðrum ársfjórðungi 2019, 36,1 stund hjá konum og 42,5 stundir hjá körlum.

Á öðrum ársfjórðungi 2020 vann starfandi fólk að jafnaði 38,8 stundir í venjulegri viku samanborið við 39,8 á öðrum ársfjórðungi 2019. Af þeim sem unnu minna á 2. ársfjórðungi 2020 en venjulega nefndu 48,7% frí sem helstu ástæðu færri stunda, 14,3% nefndu vinnuskipulag, 12,2% nefndu Covid-19 beint, 11,1% sögðu misjafnt að gera og 3,9% nefndu veikindi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.