FRÉTT VINNUMARKAÐUR 04. MAÍ 2023

Helstu niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands fyrir fyrsta ársfjórðung 2023 sýna að staða vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði hefur lítið breyst frá árinu áður.

Fjöldi og hlutfall starfandi fólks
Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 79,4% á fyrsta ársfjórðungi 2023 sem er sama hlutfall og það var á sama ársfjórðungi 2022. Fjöldi starfandi fólks á fyrsta ársfjórðungi 2023 var 220.700 manns og var hlutfall starfandi einstaklinga af mannfjölda 76,3%.

Frá fyrsta ársfjórðungi 2022 til fyrsta ársfjórðungs 2023 fjölgaði starfandi fólki um 8.100 manns og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði lítillega eða um 0,2 prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 73,0 % og starfandi karla 79,4%. Starfandi konum fjölgaði um 2.800 og körlum um 5.300. Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 76,7% og utan höfuðborgarsvæðis 75,7%.

Til samanburðar voru 204.200 starfandi einstaklinga á fyrsta ársfjórðungi 2022 og hlutfall af mannfjölda var 76,1%. Hlutfall starfandi kvenna var 73,1% og starfandi karla 79,0%. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 77,2% og 74,5% utan höfuðborgarsvæðisins.

Af starfandi fólki á fyrsta ársfjórðungi 2023 voru 155.300 í fullu starfi, eða 73,2%, og 57.000 í hlutastarfi eða 26,8%. Þrátt fyrir að fólki í fullu starfi hafi fjölgað um 6.900 frá fyrsta ársfjórðungi 2022 jókst hlutfall þess af fjölda starfandi einstaklinga ekki nema um hálft prósentustig. Af starfandi konum voru 61,3% í fullu starfi á fyrsta ársfjórðungi 2023 og 83,3% af starfandi körlum. Af þeim sem voru í hlutastarfi á fyrsta ársfjórðungi 2023 voru um 7.300 manns sem teljast vinnulitlir, eða 3,5% af öllum starfandi. Til samanburðar töldust 8.500 manns vinnulitlir á sama ársfjórðungi 2022 eða 4,3%. Til vinnulítilla telst fólk í hlutastarfi sem bæði getur og vill vinna fleiri vinnustundir en það gerir.

Meðalfjöldi unninna stunda
Á fyrsta ársfjórðungi 2023 var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 37,1 klukkustund hjá þeim sem voru við vinnu. Heildarvinnustundir kvenna voru að meðaltali 33,1 stund en 40,3 stundir hjá körlum. Til samanburðar var meðalfjöldi vinnustunda 36,1 stund á fyrsta ársfjórðungi 2022. Konur unnu þá að jafnaði 31,7 stundir og karlar að jafnaði 39,8 stundir. Konur unnu því að jafnaði 1,4 stundum fleiri nú en á fyrsta ársfjórðungi 2022 og karlar um hálftíma lengur en þeir gerðu árið áður.

Atvinnuleysi meira á meðal karla en kvenna
Á fyrsta ársfjórðungi 2023 töldust að meðaltali 8.400 einstaklingar atvinnulausir eða um 3,8% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Atvinnuleysi kvenna var 2,6% og karla 4,9%. Til samanburðar voru um 8.800 einstaklingar atvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2022 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 4,1%. Atvinnuleysi á meðal kvenna var þá 4,4% og á meðal karla var það 3,9%.

Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 9,1% sem er nokkru lægra en það var á sama ársfjórðungi árið 2022 þegar það var 10,1%. Hjá aldurshópnum 25 til 54 ára var atvinnuleysi 3,4% og stóð í stað á milli ára. Hjá elsta hópnum, 55-74 ára, var atvinnuleysið 1,5% samanborið við 2,0% á fyrsta ársfjórðungi 2022.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.