Á fyrsta ársfjórðungi 2018 voru að jafnaði 200.200 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 194.500 starfandi og 5.700 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka var 80,7%, hlutfall starfandi 78,4% en atvinnuleysi 2,9%. Samanborið við fyrsta ársfjórðung 2017 fjölgaði starfandi fólki um 3.000 en hlutfall starfandi af mannfjölda lækkaði hins vegar um tvö prósentustig. Á sama tíma stóð fjöldi atvinnulausra nánast í stað og hlutfall þeirra af vinnuafli sömuleiðis. Atvinnulausar konur voru 2.300 og var atvinnuleysi á meðal kvenna 2,5%. Atvinnulausir karlar voru 3.400 eða 3,2%. Atvinnuleysi var 3,0% á höfuðborgarsvæðinu og 2,6% utan þess.
Langtímaatvinnuleysi
Eftir aukningu langtímaatvinnuleysis á árunum 2009 til 2012 má segja að nú sé það áþekkt því sem var fyrir árið 2008. Á fyrsta ársfjórðungi 2018 höfðu um 500 manns verið langtímaatvinnulausir eða 0,3% af þeim sem voru á vinnumarkaði, sem er sama hlutfall og á fyrsta ársfjórðungi 2017, auk þess sem litlar breytingar mælast nú á milli ársfjórðunga.
Vinnutími
Á fyrsta ársfjórðungi 2018 voru að jafnaði 181.800 manns við vinnu í hverri viku ársfjórðungsins eða 93,5% starfandi fólks og 73,3% af heildarmannfjölda 16–74 ára. Meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku voru 38,6 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 43,9 klukkustundir hjá þeim sem voru í fullu starfi og 22,2 klukkustundir hjá þeim sem voru í hlutastarfi.
Vinnumarkaður á 1. ársfjórðungi 2018 - Hagtíðindi