FRÉTT VINNUMARKAÐUR 29. SEPTEMBER 2020

Rúmlega 22% starfandi einstaklinga á íslenskum vinnumarkaði höfðu sveigjanlegan vinnutíma á öðrum ársfjórðungi 2019 samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands á vinnufyrirkomulagi og skipulagi vinnutíma sem framkvæmd var sem hluti af vinnumarkaðsrannsókn. Á sama tíma sögðust 28,4% hafa sveigjanlegan vinnutíma að hluta til og 49,3% að atvinnurekandi eða viðskiptavinir stjórnuðu vinnutímanum. Fleiri karlar en konur sögðust vera með sveigjanlegan vinnutíma eða 25,7% karla samanborið við 18,2% kvenna. Svipuð hlutföll karla og kvenna voru með sveigjanlegan vinnutíma að hluta eða 27,6% karla og 29,3% kvenna. Hjá einstaklingum á aldrinum 16-24 ára réð atvinnurekandi eða viðskiptavinir alfarið vinnutímanum hjá 77,9% samanborið við 45,3% í hópi 25-54 ára og 40,3% í hópi 55-74 ára.

Þegar sveigjanleiki vinnutíma er skoðaður eftir starfsstéttum var hlutfall þeirra sem hafa sveigjanlegan vinnutíma hæst hjá bændum og fiskimönnum eða 61,6%. Lægsta hlutfallið var hinsvegar hjá þeim sem gegna þjónustu-, umönnunar- og sölustörfum, eða 7,9%, og hjá þeim sem sinna ósérhæfðum störfum, 8,0%. Hæsta hlutfall einstaklinga með sveigjanlegan vinnutíma að hluta var hjá sérfræðingum, eða 43,4%, en lægst hjá þeim sem sinna störfum véla- og vélgæslufólks, 13,5%.

Sveigjanleiki vinnutíma borið saman við önnur lönd
Alls voru 18% Evrópubúa með sveigjanlegan vinnutíma á 2. ársfjórðungi 2019, 21% höfðu sveigjanlegan vinnutíma að hluta til en atvinnurekendur eða viðskiptavinir stjórnuðu vinnutíma hjá tæplega 61%. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem algengast er að vinnutími sé sveigjanlegur (22,3%) en hærra hlutfall má sjá í Tyrklandi (29,6%), Rúmeníu og Belgíu (22,6%) og Finnlandi (22,5%).

Starfstengd verkefni í frítíma
Haft var samband við 24% starfandi einu sinni til tvisvar á síðustu tveimur mánuðum vegna starfstengdra erinda í frítíma. Af þeim sem haft var samband við oftar en tvisvar þurftu 13% að sinna erindinu í frítíma en rúm 15% ekki. Af öllum starfandi voru 47% sem ekki var haft samband við á frítíma vegna vinnutengdra erinda.

Sé horft til Evrópuríkjanna var haft samband við sambærilegt hlutfall starfandi, eða 23%, á frítíma einu sinni eða tvisvar á síðustu tveimur mánuðum vegna vinnutengdra erinda, en mun algengara var að ekki væri haft samband vegna vinnutengdra mála á frítíma eða hjá tæplega 6 af hverjum 10 starfandi í Evrópu. Af þeim sem haft var samband við nokkrum sinnum þurftu 10% að sinna erindinu í frítíma en 7% ekki.

Íslendingar eiga mjög auðvelt með að fá 1-2 daga frí samanborið við önnur Evrópulönd
Töluverður munur er á milli kynjanna þegar kemur að því að fá eins til tveggja daga frí með þriggja daga fyrirvara en 78% karla á aldrinum 16-74 ára segjast eiga mjög eða frekar auðvelt með að fá frí samanborið við rúm 66% kvenna. Mismuninn má sjá í öllum aldursflokkum, en hlutfall þeirra sem segist eiga mjög auðvelt eða frekar auðvelt með að fá frí er tæplega 16 prósentustigum hærri hjá 16-24 ára körlum samanborið við konur, tæplega 9 prósentustigum hærra hjá 25-54 ára og um 17 prósentustigum hærra hjá 55-74 ára.

Alls eiga 19% starfandi í Evrópu mjög auðvelt með að fá frí, tæp 36% segjast eiga frekar auðvelt með að fá frí, 16% segja það frekar erfitt og 29% mjög erfitt. Starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði býr vel samanborið við önnur Evrópuríki þegar kemur að því að fá frí í einn til tvo daga með þriggja daga fyrirvara en alls segjast tæp 36% eiga mjög auðvelt með að fá frí. Það er með hæstu hlutföllum sem mælast í Evrópu en einungis Slóvenía (48,1%) og Malta (41,4%) mælast með hærra hlutfall.

Um gögnin
Rannsókn á tilhögun og skipulagi vinnutíma var framkvæmd sem hluti af vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands á 2. ársfjórðungi 2019 sem svokallað viðhengi. Vinnutímaviðhenginu var ætlað að meta vinnufyrirkomulag og vinnutímaskipulag starfandi fólks til þess að greina hversu mikinn sveigjanleika einstaklingar hafa í starfi. Spurningarnar sem lagðar voru fyrir taka mið af þeim þáttum sem gert er ráð fyrir að séu þeir mikilvægustu fyrir vellíðan einstaklinga í starfi og jafnvægi á mili vinnu og frítíma.

Spurningarnar náðu til allra þátttakenda sem töldust starfandi hvort sem þeir voru launþegar eða sjálfstætt starfandi. Í þeim tilfellum sem þátttakendur höfðu fleiri en eitt starf eiga spurningarnar við um aðalstarf þeirra. Spurningar viðhengisins voru lagðar fyrir yfir þriggja mánða tímabil eða frá 1. apríl til 30. júní 2019. Í úrtak völdust af handahófi 4.978 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára sem höfðu lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 4.876 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 2981 einstaklingum sem jafngildir 61,1% svarhlutfalli.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.