FRÉTT VINNUMARKAÐUR 04. JANÚAR 2023

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru 23,8% starfandi fólks á aldrinum 16-64 ára í hlutastörfum árið 2021. Frá árinu 2003 hefur hlutfall fólks í hlutastörfum verið á bilinu 20,7% til 24,7%, lægst árið 2008 og hæst árið 2010. Hlutfall kvenna í hlutastörfum var töluvert hærra en hlutfall karla eða 35,8% samanborið við 13,4%. Einstaklingar í hlutastarfi sem vilja vinna meira, vinnulitlir (e. underemployed), voru 4,2% af starfandi árið 2021. Hlutfallið var 5,7% á meðal kvenna en 2,9% á meðal karla.

Árið 2021 var hlutfall fólks á aldrinum 16-64 ára í hlutastörfum á Íslandi hærra en meðaltal ríkja Evrópusambandsins, eða 23,8% samanborið við 17,7%. Hlutfall fólks í hlutastörfum var hæst í Hollandi (42,2%) og Sviss (37,8%) og lægst í Slóvakíu (3,1%) og Búlgaríu (1,6%).

Hlutfall starfandi fólks í hlutastörfum sem vildi vinna meira var hærra á Íslandi heldur en meðaltal ríkja Evrópusambandsins árið 2021, eða 4,2% samanborið við 3,2%. Hlutfallið var hæst á Spáni (6,3%) og í Hollandi (6,1%) og lægst í Tékklandi (0,3%) og Búlgaríu (0,3%).

Á tímabilinu 2003-2021 var hlutfall fólks í hlutastörfum lægra á meðal innflytjenda en fólks með innlendan bakgrunn. Árið 2021 voru 20,8% starfandi innflytjenda í hlutastörfum samanborið við 24,3% fólks með innlendan bakgrunn. Hlutfall þeirra sem töldust vinnulitlir á tímabilinu 2003-2021 var oft áþekkt en árið 2021 var hlutfallið hærra á meðal innflytjenda, eða 5,3% samanborið við 4,0% hjá öðrum hópum.

Hlutfall fólks í hlutastörfum með grunnmenntun hefur lækkað frá árinu 2003 eða úr 25,6% í 19,5% árið 2021. Á sama tímabili var hlutfall fólks með starfs- og framhaldsmenntun í hlutastörfum hæst árið 2021 eða 19,6%. Hlutfall háskólamenntaðra í hlutastörfum var 17,8% árið 2021 og hefur ekki verið hærra síðan árið 2010 þegar hlutfallið var 18,5%. Hlutfall háskólamenntaðra í hlutastörfum var lægst árið 2015 eða 14,6%. Árið 2021 voru vinnulitlir 2,9% meðal háskólamenntaðra, 3,0% á meðal fólks með grunnmenntun og 3,3% hjá fólki með starfs- og framhaldsmenntun.

Um gögnin
Tölurnar byggja á upplýsingum úr vinnumarkaðsrannsókn (VMR) Hagstofu Íslands. VMR er ætlað að afla upplýsinga um störf fólks, vinnutíma og atvinnuleit þeirra í samræmi við vinnumarkaðsmælingar hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat). Þar sem VMR er úrtaksrannsókn þarf að gera ráð fyrir óvissu í niðurstöðum. Almennt séð eykst óvissan eftir því sem hópar eru fámennari. Rétt er að benda á að niðurstöður fyrir Ísland byggja á endurbættum vogum í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands og því er í einhverjum tilfellum ósamræmi milli birtra talna á vef Hagstofu og á vef Eurostat..

Innflytjendur eru þeir einstaklingar sem fluttust til landsins, fæddust erlendis og eiga foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Aðrir flokkast með innlendan bakgrunn, þar með talið afkomendur innflytjenda sem fæðast á Íslandi og þeir einstaklingar sem eiga annað foreldri erlent og fluttust til landsins.

Menntunarstig er skilgreint samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi menntunar ISCED2011 þar sem grunnmenntun er ISCED 1-2, starfs- og framhaldsmenntun eru ISCED 3-4 og háskólamenntun ISCED 5-6.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.