FRÉTT VINNUMARKAÐUR 02. JÚLÍ 2004

Fjöldi starfandi árið 2003 var 155.680 manns en árið 2002 var fjöldi starfandi 156.070 manns samkvæmt staðgreiðsluskrá Hagstofu Íslands.  Starfandi fólki fækkaði óverulega milli áranna, eða um 0,2%. Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði starfandi um 0,2% en utan höfuðborgarsvæðisins fækkaði þeim um 1%. Á Austurlandi var engin breyting á fjölda starfandi fólks milli áranna en í öðrum landshlutum fækkaði starfandi fólki. Mest um 2,2% á Vestfjörðum, 1,7% á Suðurnesjum, 1,2% á Norðurlandi vestra, 0,7% á Suðurlandi og 0,6% á Norðurlandi eystra.

Starfandi fólki fækkar í frumvinnslu- og iðngreinum en fjölgar í þjónustu
Við frumvinnslugreinar störfuðu 9.710 manns árið 2003, 35.460 manns störfuðu við iðngreinar og 110.510 störfuðu við þjónustugreinar. Milli áranna 2002 og 2003 fækkaði þeim sem störfuðu við frumvinnslugreinar um 5,5% en um 1,1% hjá þeim sem störfuðu við iðngreinar. Þeim sem störfuðu við þjónustugreinar fjölgaði um 0,5%. 
       Í öllum landshlutum fækkaði starfandi fólki í frumvinnslugreinum milli áranna 2002 og 2003. Á Suðurlandi var fækkunin mest í frumvinnslugreinum, eða 6,4%, en minnst á Norðurlandi vestra, eða 2,4%. Í iðngreinum fækkaði starfandi í öllum landshlutum milli áranna nema á Norðurland eystra og Austurlandi. Mest fækkaði starfandi við iðngreinar á Vestfjörðum, eða 6,4% en minnst á höfuðborgarsvæðinu, eða 0,9%. Á Norðurlandi eystra fjölgaði starfandi við iðngreinar um 0,3% en á Austurlandi varð engin breyting á fjölda starfandi. Á milli áranna fækkaði starfandi á Suðurnesjunum en í öðrum landshlutum fjölgaði þeim eða engin breyting varð á fjölda starfandi. Á Suðurnesjunum fækkaði starfandi við þjónustugreinar um 0,2% , á Norðurlandi vestra var engin breyting á fjölda starfandi en starfandi fjölgaði mest á Suður- og Austurlandi, eða um 1,7%.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.