FRÉTT VINNUMAGN OG FRAMLEIÐNI 02. MAÍ 2018

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum þjóðhagsreikninga voru 197.800 starfandi einstaklingar á íslenskum vinnumarkaði árið 2017, 4,8% fleiri en árið áður. Á sama tímabili jókst heildarfjöldi unninna stunda um 3,4%. Á árabilinu 2010 til 2017 fjölgaði starfandi einstaklingum um 22% en fjöldi unninna stunda jókst um 16%. Fjöldi vinnustunda mælir heildarvinnuframlag í hagkerfinu og er sá mælikvarði sem yfirleitt notaður varðandi vinnuaflsþáttinn í verðmætasköpun hagkerfisins.

Hægir á framleiðnivexti
Samkvæmt bráðabirgðatölum framleiðsluuppgjörs jókst framleiðni vinnuafls um 0,2% milli áranna 2016 og 2017 sem er nokkru minni vöxtur en undanfarin ár. Til samanburðar mældist árlegur vöxtur í framleiðni vinnuafls 2,3% að meðaltali á árabilinu 2014-2016 en frá árinu 2008 hefur framleiðni vinnuafls aukist um 13,4%. Mikil breyting hefur orðið í einstökum atvinnugreinum á þessu tímabili, en milli áranna 2016 og 2017 mældist vöxtur framleiðni mestur í landbúnaði og fiskveiðum og í fjármála- og vátryggingarstarfsemi.



Rétt er að hafa í huga að tölur fyrir árið 2017 eru bráðabirgðatölur sem verða endurskoðaðar út frá nýjum gögnum við birtingu þjóðhagsreikninga þann 7. september nk.

Nýlega birti Hagstofan í fyrsta sinn tölur um vinnumagn og framleiðni vinnuafls eftir atvinnugreinum. Tölfræði um vinnumagn í þjóðhagsreikningum byggir á alþjóðlegum stöðlum þjóðhagsreikninga og er ætlað að gefa heildarmynd af vinnuafli hverrar atvinnugreinar svo sem fjölda þeirra sem starfa í viðkomandi grein og fjölda unninna stunda allra starfsmanna á skilgreindu viðmiðunartímabili. Framleiðni vinnuafls er birt sem vísitala á ársgrundvelli reiknuð út frá magnvísitölu vergra þáttatekna og fjölda vinnustunda í heild.

Ítarlegri umfjöllun um aðferðafræði og niðurstöður er hægt að nálgast hér.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.