Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í október 2025, er 661,4 stig (maí 1988=100) og hækkar um 0,47% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 527,7 stig og hækkar um 0,36% frá september 2025.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,9% (áhrif á vísitölu 0,19%).
Í ljósi umræðu um áhrif gjaldþrots eins flugfélags á verð hjá öðrum flugfélögum er rétt að benda á að flugverð í vísitölu neysluverðs er mælt með 2ja, 4ra og 8 vikna fyrirvara og mælingarnar notaðar til útreikninga í þeim mánuði sem ferðin á sér stað. Þetta þýðir að flugverð sem notað var til útreikninga í október var mælt í ágúst, september og október þannig að einungis hluti mælinganna fór fram eftir að fréttir bárust af gjaldþroti Play.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,3% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,3%.
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í október 2025, sem er 661,4 stig, gildir til verðtryggingar í desember 2025.