FRÉTT VERÐLAG 28. APRÍL 2022

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í apríl 2022, er 535,4 stig (maí 1988=100) og hækkar um 1,25% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 448,3 stig og hækkar um 0,99% frá mars 2022.

Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,4% (áhrif á vísitöluna 0,20% en þar af voru mjólkurvörur 0,13%), kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 2,4% (0,45%) og verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 22,9% (0,37%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,2% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 5,3%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í apríl 2022, sem er 535,4 stig, gildir til verðtryggingar í júní 2022. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 10.571 stig fyrir júní 2022.

Uppfærðar grunnvogir
Vísitala neysluverðs í apríl er reiknuð á nýjum grunni, mars 2022, og byggist hann á niðurstöðum úr rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna 2018-2020. Neysluhlutföll eru skoðuð yfir þriggja ára tímabil til þess að draga fram langtímaþróun á sama tíma og dregið er úr skammtímasveiflum í niðurstöðum. Jafnframt er litið til annarra heimilda, svo sem þjóðhagsreikninga, til þess að styrkja niðurstöður.

Við grunnskiptin nú er breytt aðferð við mat á vog fyrir lið „043 Viðhald og viðgerðir á húsnæði“. Hún er nú metin sem hlutfall af húsaleigu (greiddri og reiknaðri) líkt og gert er í einkaneyslu þjóðhagsreikninga. Vegna breytingarinnar lækkar vægi liðarins í vísitölu neysluverðs.

Endurnýjun grunnsins veldur sem slík ekki breytingum á vísitölunni á milli mars og apríl. Hlutfallslega skiptingu vísitölunnar á gömlum og nýjum grunni í mars 2022 má finna í meðfylgjandi minnisblaði.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1200 , netfang neysluverd@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.