Gefin hafa verið út Hagtíðindi með niðurstöðum úr rannsókn á útgjöldum heimilanna árin 2008-2010. Niðurstöður eru sundurliðaðar eftir búsetu, heimilisgerð, tekju- og útgjaldahópum. Heildarniðurstöður eru bornar saman við útgjaldarannsóknina 2007-2009. 

Neysluútgjöld á heimili árin 2008–2010 voru 442 þúsund krónur á mánuði og hafa dregist saman um 3,1% frá tímabilinu 2007–2009. Á sama tíma hefur meðalheimilið stækkað úr 2,37 einstaklingum í 2,41 og hafa útgjöld á mann dregist saman um 4,6% og eru nú 183 þúsund krónur á mánuði. Vísitala neysluverðs hækkaði um 5,4% frá 2009 til 2010 og hafa heimilisútgjöldin dregist saman um 8% að teknu tilliti til verðbreytinga eða 9,5% á mann.

Ráðstöfunartekjur meðalheimilisins í rannsókninni voru 508 þúsund krónur á mánuði, 211 þúsund krónur á mann. Ráðstöfunartekjur flestra hópa voru hærri en útgjöld þeirra en neysluútgjöldin voru að meðaltali 87% af ráðstöfunartekjum.

Í úrtaki voru 3.475 heimili, 1.861 þeirra tók þátt í rannsókninni og var svörun 53,6%.

Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2008-2010 - Hagtíðindi

Talnaefni