FRÉTT VERÐLAG 24. JANÚAR 2006

Gefin hafa verið út Hagtíðindi með niðurstöðum úr rannsókn á útgjöldum heimilanna árin 2002-2004, á verðlagi ársins 2004. Niðurstöður eru sundurliðaðar eftir búsetu, heimilisgerð, tekju- og útgjaldahópum auk þess sem heildarniðurstöður eru bornar saman við útgjaldarannsóknina 2001-2003. Þá er í heftinu að finna ýmsar upplýsingar um heimilin í landinu, svo sem um húsnæði, tækjaeign, áskriftir o.fl.

Neysluútgjöld á heimili árin 2002–2004 hafa hækkað um 9,3% frá tímabilinu 2001–2003. Á sama tíma hefur meðalstærð heimilis minnkað úr 2,62 einstaklingum í 2,58 og hafa útgjöld á mann því hækkað um 10,6%.

Hlutfall matar og drykkjarvöru í heimilisútgjöldum heldur áfram að lækka, er nú 14,4% en var 15,2%. Hlutfall húsnæðis, hita og rafmagns hefur hækkað úr 22,5% í 22,9% af heildarútgjöldunum og hlutur ferða og flutninga jókst úr 12,9% í 15,7%, aðallega vegna aukins innflutnings á nýjum bílum.   

Ráðstöfunartekjur meðalheimilisins eru um 340 þúsund krónur á mánuði, tæpar 132 þúsund krónur á mann. Ráðstöfunartekjur flestra hópa eru hærri en útgjöld þeirra en neysluútgjöldin eru að meðaltali um 94% af ráðstöfunartekjum.

Í úrtaki voru um 3.600 heimili, 1.888 þeirra tóku þátt í rannsókninnni og var svörun því um 53%.

Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2002-2004 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.