FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 31. ÁGÚST 2021

Fluttar voru út vörur fyrir 67,8 milljarða króna fob í júlí 2021 og inn fyrir 84,7 milljarða króna cif (78,4 milljarða króna fob). Vöruviðskiptin í júlí, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 16,9 milljarða króna.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin reiknuð á fob/cif-verðmæti óhagstæð um 18,8 milljarða króna í júlí 2020 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuðurinn í júlí 2021 var því 1,9 milljörðum hagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 187,8 milljarða króna sem er 24,8 milljarða króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr. Frávikið frá áður birtu tólf mánaða innflutningsverðmæti er vegna breytinga á meðferð tiltekinna leigusamninga um skip og flugvélar eins og greint er frá síðar í fréttinni.

Verðmæti útflutnings jókst um 15,2% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í júlí 2021 jókst um 21,1 milljarð króna, eða um 45,0%, frá júlí 2020, úr 46,8 milljörðum króna í 67,8 milljarða. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 17,5 milljarða króna, eða 70,3% samanborið við júlí 2020, og munar þar mest um aukið útflutningsverðmæti áls og kísiljárns. Útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um tvo milljarða, eða um 10,6%, og munar þar mestu um aukið verðmæti uppsjávarfisks.

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá ágúst 2020 til júlí 2021, var 691,4 milljarðar króna og hækkaði um 91 milljarð króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 15,2% á gengi hvors árs.. Iðnaðarvörur voru 48,3% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánaði og var verðmæti þeirra 13,4% meira en á tólf mánaða tímabili þar á undan. Sjávarafurðir voru 42,3% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 14,2% á milli tólf mánaða tímabila. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 9,7 milljarða, eða 36,8%, á sama tímabili og var um 5,2% af heildarútflutningsverðmæti síðustu tólf mánaða.

Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 15,2% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 84,7 milljörðum króna í júlí 2021 samanborið við 65,6 milljarða í júlí í fyrra. Verðmæti flutningstækja (þar með talið skipa og flugvéla) jókst um 6,9 milljarða króna (77,2 %), verðmæti hrá- og rekstrarvara jókst um 3,7 milljarða (18,8%) og verðmæti eldsneytis jókst um 3,8 milljarða króna (112,6%). Aðrir liðir tóku minni breytingum.

Verðmæti vöruinnflutnings síðustu tólf mánuði var 879,2 milljarðar króna og jókst um 115,8 milljarða króna miðað við tólf mánuði þar á undan eða um 15,2% á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin á þessu tólf mánaða tímabili er í öllum flokkum nema eldsneyti.

Meðaltal gengisvísitölu síðustu tólf mánuði var 200,1 og var gengið 5,8% veikara en á fyrra tólf mánaða tímabili þegar meðaltal gengisvísitölu var 189,9. Gengið styrktist aftur á móti um 6,7% í júlí (191,8) samanborið við júlí 2020 (205,5).

Endurskoðun fyrri niðurstaðna
Meðferð tiltekinna leigusamninga um skip og flugvélar hefur tekið breytingum frá áður útgefnum tölum fyrir árin 2018-2020. Áhrifin koma fram í birtum tölum um utanríkisviðskipti, fjármunamyndun í þjóðhagsreikningum og greiðslujöfnuð við útlönd. Í ESA 2010 þjóðhagsreikningastaðli er gerður greinarmunur á rekstrarleigusamningum og fjármögnunarsamningum en við mat á því hvað telst til rekstrarleigusamnings og hvað til fjármögnunarleigusamnings er horft til þess hvar hagrænt eignarhald viðkomandi eignar (sem gerður er samningur um) liggur, þ.e. hvort það sé á hendi leigusala eða leigutaka.

Hagrænt eignarhald er ekki það sama og lögformlegt eignarhald, sem vísar til þess hver er skráður eigandi viðkomandi eignar, en algengast er að bæði hagrænt og lögformlegt eignarhald sé á sömu hendi. Með hagrænu eignarhaldi er vísað til þess hver beri áhættu af og njóti ávinnings af notkun viðkomandi eignar við framleiðslu vöru eða þjónustu. Breytingar sem gerðar hafa verið á áður útgefnum tölum felast í því að eignir sem áður voru færðar sem rekstrarleigueignir og töldust með þjónustuviðskiptum eru nú færðar sem fjármögnunarleigueignir og teljast með vöruviðskiptum.

Þessi breyting hefur áhrif til aukningar vöruinnflutnings og fjármunamyndunar en til lækkunar á innfluttri þjónustu frá útlöndum áranna 2018-2021. Áhrifin munu einnig koma fram í aukningu erlendra skulda og vaxtagreiðslum til útlanda.

Verðmæti út- og innflutnings á tólf mánaða tímabili
Milljarðar króna á gengi hvors árságúst 2019-júlí 2020ágúst 2020-júlí 2021Breyting, %
Útflutningur alls fob600,3691,415,2
Sjávarafurðir256,0292,314,2
Landbúnaðarvörur (þ.m.t. eldisfiskur)32,144,337,8
Iðnaðarvörur294,2333,713,4
Aðrar vörur18,021,117,2
Innflutningur alls cif763,3879,215,2
Matvörur og drykkjarvörur78,586,410,1
Hrávörur og rekstrarvörur, ót.a.224,8260,315,8
Eldsneyti og smurolíur74,052,0-29,8
Fjárfest.vörur (þó ekki flutn.tæki)163,6197,220,5
Flutningatæki104,8133,827,7
Neysluvörur ót.a.117,0149,227,5
Vörur ót.a (t.d. endursendar vörur)0,60,3-56,4
Vöruskiptajöfnuður-163,0-187,8 

*Heimild: Seðlabanki Íslands - Gengisvísitala (Vísitala meðalgengis - viðskiptavog þröng).

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281152 , netfang utanrikisverslun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.