Fluttar voru út vörur fyrir 68,7 milljarða króna fob í júní 2025 og inn fyrir 110,4 milljarða cif (104,5 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í júní, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 41,7 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 43,2 milljarða króna í júní 2024 á gengi hvors árs fyrir sig.
Vöruviðskiptajöfnuðurinn í júní 2025 var því 1,4 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruviðskiptajöfnuður síðustu tólf mánuði var óhagstæður um 477,7 milljarða króna sem er 99,5 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.
Verðmæti útflutnings jókst um 6% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í júní 2025 var 7,3 milljörðum króna minni (10%) en í júní 2024, fór úr 76,0 milljörðum króna í 68,7 milljarða.
Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili var 980,8 milljarðar króna og jókst um 56,9 milljarða miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr eða um 6% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 55% alls vöruútflutnings og verðmæti þeirra jókst um 11% samanborið við tólf mánaða tímabil ári fyrr. Sjávarafurðir voru 36% alls vöruútflutnings og verðmæti þeirra jókst um 2% í samanburði við tólf mánaða tímabil ári fyrr.
Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 12% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 110,4 milljörðum króna í júní 2025 samanborið við 119,2 milljarða í júní 2024 og dróst því saman um 8,8 milljarða króna eða um 7%.
Verðmæti vöruinnflutnings á tólf mánaða tímabili var 1.458,5 milljarðar króna og jókst um 156,3 milljarða króna miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr eða 12% á gengi hvors árs fyrir sig. Samdráttur var í innflutningi á eldsneyti og smurolíum og flutningatækjum en á móti kom aukning á innflutningi á öðrum liðum, mest þó á fjárfestingarvörum. Mikinn vöxt í fjárfestingavörum má að verulegu leyti rekja til umfangsmikils innflutnings tölvuvara hjá fyrirtækjum sem reka gagnaver í landinu.
Meðaltal gengisvísitölu síðustu tólf mánaða var 192,0, styrktist um 1,1% (194,1) frá tólf mánaða tímabili ári fyrr. Gengið var 5,7% sterkara í júní 2025 (184,6) samanborið við júní 2024 (195,7).
Í þessari frétt er um að ræða bráðabirgðatölur fyrir júní og gætu niðurstöður breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar.