FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 29. ÁGÚST 2014

Hagstofa Íslands telur nú með í innflutningi vara kaup innlendra aðila (flutningsfara) á eldsneyti erlendis í samræmi við nýjan staðal fyrir vöruskipti við útlönd. Samkvæmt niðurstöðum sem hafa verið birtar áður um vöruskipti árið 2013 lækkar afgangur úr 69,3 milljörðum króna í 40,2 milljarða króna og halli í áður útgefnum niðurstöðum um vöruskipti janúar-júní 2014 eykst úr 2,4 milljörðum króna í 15,4 milljarða króna. Þessi innflutningur var áður talinn með í þjónustuviðskiptum við útlönd sem batna sem þessu nemur. Fleiri breytingar vegna nýrra staðla vöruskipta verða teknar með í september 2015 en þær eru ekki taldar hafa mikil áhrif á niðurstöður. Samtímis verða töflur um vöruskipti 2012 og fyrr leiðréttar samkvæmt nýjum staðli á vef Hagstofu.

Með nýjum staðli greiðslujafnaðar verður ekki lengur hægt að nota niðurstöðutölur fyrir vöruskipti beint í greiðslujöfnuð. Nýr staðall þjónustuviðskipta við útlönd verður tekinn í notkun 1. september 2014 og samtímis verður birt brúartafla til að sýna breytingar sem verða á niðurstöðum aftur til ársins 1995. Taflan verður uppfærð framvegis um leið og niðurstöður um þjónustuviðskipti við útlönd eru birtar.

Sjá nánar: Nýir staðlar við gerð hagskýrslna

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.