FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 24. FEBRÚAR 2023

Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning var uppfærð 28. febrúar 2023 frá upprunalegri útgáfu. Viðskipti vegna notkunar á hugverkum á milli landa og önnur viðskipti tengd þeim fyrir tímabilið 2018-2022 hafa verið endurskoðuð sem hefur áhrif á áður birtar tölur um þjónustuviðskipti við útlönd.

Verðmæti þjónustuútflutnings á fjórða ársfjórðungi 2022 er áætlað 178,5 milljarðar króna en verðmæti þjónustuinnflutnings 154,3 milljarðar. Fyrir vikið er gert ráð fyrir því að þjónustujöfnuður hafi verið jákvæður um 24,1 milljarð króna en hann var jákvæður um 6,33 milljarða á sama tíma árið áður. Á tólf mánaða tímabili, frá janúar 2022 til desember 2022, var þjónustujöfnuður jákvæður um 186,5 milljarða króna en var jákvæður um 76 milljarða tólf mánuðina þar á undan.

Verðmæti þjónustuútflutnings jókst um 66% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti þjónustuútflutnings á fjórða ársfjórðungi jókst um 48,6 milljarða króna, eða um 37%, frá fjórða ársfjórðungi 2021 á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðalögum halda áfram að aukast eins og undanfarna ársfjórðunga, samanborið við fjórða ársfjórðung 2021, eða um 22,9 milljarða (50%). Tekjur af samgöngum og flutningum jukust um 17,3 milljarða, eða um 48% frá fjórða ársfjórðungi 2021. Útflutningstekjur af annarri viðskiptaþjónustu jukust einnig um 3,7 milljarða króna, eða um 20%.

Verðmæti þjónustuútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá janúar 2022 til desmber 2022, var 738,2 milljarðar króna og jókst um 293,1 milljarð miðað við sama tímabil árið áður, eða um 66% á gengi hvors árs. Vöxtur í útflutningstekjum af ferðalögum á sama tímabili nam 163,9 milljörðum sem er rétt tæplega tvöföldun. Útflutningstekjur af samgöngum og flutningum jukust einnig um 86%, og sömu sögu er að segja af útflutningstekjum af fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu sem jukust um 19%.

Verðmæti þjónustuinnflutnings jókst um 49% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti þjónustuinnflutnings á fjórða ársfjórðungi jókst um 30,7 milljarða króna, eða um 25%, frá fjórða ársfjórðungi 2021 á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis jukust um 15,8 milljarða (41%), samanborið við fjórða ársfjórðung 2021. Útgjöld vegna samgangna og flutninga jukust einnig á milli ára, eða um 6 milljarða(25%). Sömu sögu er að segja af útgjöldum vegna annarrar viðskiptaþjónustu sem jukust um 23% á milli ára.

Verðmæti þjónustuinnflutnings á tólf mánaða tímabili, frá janúar 2022 til desmember 2022, var 551,7 milljarðar króna og jókst um 182,6 milljarða miðað við sama tímabil árið áður, eða um 49% á gengi hvors árs. Þar vó þyngst að útgjöld Íslendinga á ferðalögum erlendis jukust mikið og rúmlega tvöfölduðust miðað við tólf mánuðina þar á undan. Einnig jukust útgjöld vegna samgangna og flutninga, eða um 44%, og útgjöld vegna annarrar viðskiptaþjónustu um 26%.

Vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður um 27,5 milljarða á tólf mánaða tímabili
Vöruútflutningur í greiðslujöfnuði* er áætlaður 259 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi 2022 en vöruinnflutningur 344,9 milljarðar. Vöruviðskiptajöfnuður er því áætlaður neikvæður um 85,8 milljarða króna.

Á fjórða ársfjórðungi 2022 er því áætlað verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 437,5 milljarðar króna samanborið við 351,9 milljarða á fjórða ársfjórðungi árið áður á gengi hvors árs. Á sama tíma er áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 499,2 milljarðar króna samanborið við 384,1 milljarð á sama tíma árið áður. Vöru- og þjónustujöfnuður er því áætlaður neikvæður um 61,7 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2022 en hann var neikvæður um 32,2 milljarða á sama tíma 2021.

Á tólf mánaða tímabili, frá janúar 2022 til desember 2022, var vöru- og þjónustujöfnuðurinn neikvæður um 27,5 milljarða króna en hann var neikvæður um 66,3 milljarða á tólf mánaða tímabilinu þar á undan.

Mánaðarlegur vöru- og þjónustujöfnuður
Samhliða ársfjórðungsútgáfu á vöruskipta- og þjónustujöfnuði uppfærir Hagstofan nú gögn um mánaðarlegan vöruskipta- og þjónustujöfnuð á fjórða ársfjórðungi 2022. Í desember er áætlað verðmæti útflutnings vegna vöru- og þjónustuviðskipta 156,7 milljarðar króna en áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 155,5 milljarðar. Fyrir vikið er gert ráð fyrir því að vöru- og þjónustujöfnuður í desember 2022 hafi verið jákvæður um 1,2 milljarða króna.

Endurskoðun fyrri niðurstaðna
Meðferð á leigusamningum á flugvélum í þjóðhagsreikningum og utanríkisviðskiptum hefur verið til skoðunar á Hagstofunni um nokkurt skeið eftir að breytingar voru gerðar meðferð þessarra samninga við birtingu á niðurstöðum þjóðhagsreikninga í ágúst 2021. Leitað var til Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, varðandi aðferðafræðileg álitaefni í þessu sambandi. Var það niðurstaða Eurostat að aðgreiningur á milli fjármögunar- og rekstrarleigusamninga tæki mið af s.k. kostnaðarhlutfalli sem ræðst af markaðsveðmæti viðkomandi tækis og uppsöfnuðum leigugreiðslum yfir leigutímann. Í þeim tilvikum þar sem þetta hlutfall er tilölulega lágt sé um rekstrarleigu að ræða, en um fjármögnunarleigu að ræða sé hlutfallið hátt.

Í ljósi þessarar niðurstöðu Eurostat hefur meðhöndlun á leigusamningum í samgöngum verið færð í upphaflegt horf frá því sem var fyrir breytinguna í ágúst 2021. Breytingin hefur þau áhrif að fyrir tímabilið 2018-2022 lækkar vöruinnflutningur og fjármunamyndun, en innflutt þjónusta eykst frá því sem áður var.

Viðskipti vegna notkunar á hugverkum milli landa hafa verið umtalsverð síðustu árin en nú hafa komið fram spurningar um hvort þessar færslur uppfylli raunverulega skilyrði þjóðhagsreikninga og utanríkisviðskipta um viðskiptafærslur. Málið er enn til skoðunar innan Hagstofunnar og á meðan svo er hefur verið ákveðið að taka slíkar færslur ekki með í utanríkisviðskiptum. Þessi ráðstöfun nær til áranna 2018-2022. Heildaráhrif á á niðurstöðu viðskiptajafnaðar eru um 90 milljarðar króna til lækkunar frá áður birtum tölum.

*Samkvæmt stöðlum greiðslujafnaðar og þjóðhagsreikninga.

Talnaefni
Vöru- og þjónustviðskipti
Þjónustuviðskipti

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1156 , netfang utanrikisverslun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.