FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 27. NÓVEMBER 2025

Verðmæti þjónustuútflutnings á þriðja ársfjórðungi 2025 er áætlað 331,8 milljarðar króna en verðmæti þjónustuinnflutnings 194,4 milljarðar. Fyrir vikið er gert ráð fyrir að þjónustujöfnuður hafi verið jákvæður um 137,4 milljarða króna en hann var jákvæður um 131,7 milljarða á sama tíma árið áður. Á tólf mánaða tímabili, frá október 2024 til september 2025, var þjónustujöfnuður jákvæður um 267,1 milljarð króna en var jákvæður um 280,8 milljarða tólf mánuðina þar á undan.

Verðmæti þjónustuútflutnings jókst um 3% á þriðja ársfjórðungi
Verðmæti þjónustuútflutnings á þriðja ársfjórðungi jókst um 10,9 milljarða króna eða um 3%, frá þriðja ársfjórðungi 2024 á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðalögum jukust um 5,7 milljarða samanborið við þriðja ársfjórðung 2024 eða um 3%. Tekjur af samgöngum og flutningum drógust saman um fimm milljarða eða 5% frá þriðja ársfjórðungi 2024. Útflutningstekjur af annarri viðskiptaþjónustu drógust einnig saman um 2%.

Verðmæti þjónustuútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá október 2024 til september 2025, var 1.017,1 milljarður króna og jókst um 3% miðað við tólf mánuðina þar á undan á gengi hvors árs. Vöxtur í útflutningstekjum af ferðalögum á sama tímabili nam 6%. Útflutningstekjur af samgöngum og flutningum jukust einnig lítillega, eða um 1% á meðan útflutningstekjur af annarri viðskiptaþjónustu drógust saman um 5%.

Verðmæti þjónustuinnflutnings jókst um 3% á þriðja ársfjórðungi
Verðmæti þjónustuinnflutnings á þriðja ársfjórðungi jókst um 5,2 milljarða króna eða 3%, frá þriðja ársfjórðungi 2024 á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis jukust um 11% samanborið við þriðja ársfjórðung 2024. Útgjöld vegna annarrar viðskiptaþjónustu drógust hins vegar saman á milli ára, um 2%, á meðan útgjöld vegna samgangna og flutninga stóðu í stað.

Verðmæti þjónustuinnflutnings á tólf mánaða tímabili, frá október 2024 til september 2025, var 750 milljarðar króna og jókst um 6% miðað við sama tímabil árið áður á gengi hvors árs. Útgjöld Íslendinga á ferðalögum erlendis jukust um 11% á umræddu tímabili. Útgjöld vegna annarrar viðskiptaþjónustu jukust um 4% og útgjöld vegna samgangna og flutninga jukust um 2%.

Vöru- og þjónustujöfnuður jákvæður um 35,8 milljarða á þriðja ársfjórðungi
Vöruútflutningur í greiðslujöfnuði* er áætlaður 219,7 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2025 en vöruinnflutningur 321,3 milljarðar. Vöruviðskiptajöfnuður er því áætlaður neikvæður um 101,6 milljarða króna.

Á þriðja ársfjórðungi 2025 er því áætlað verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 551,5 milljarðar króna samanborið við 560,2 milljarð á þriðja ársfjórðungi árið áður á gengi hvors árs. Á sama tíma er áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 515,7 milljarðar króna samanborið við 503,6 milljarða á sama tíma árið áður. Vöru- og þjónustujöfnuður er því áætlaður jákvæður um 35,8 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2025 en var jákvæður um 56,6 milljarða á sama tíma 2024.

Á tólf mánaða tímabili, frá október 2024 til september 2025, var vöru- og þjónustujöfnuður áætlaður neikvæður um 141,9 milljarða króna en hann var neikvæður um 24,5 milljarða á tólf mánaða tímabilinu þar á undan.

Mánaðarlegur vöru- og þjónustujöfnuður
Samhliða ársfjórðungsútgáfu á vöruskipta- og þjónustujöfnuði uppfærir Hagstofan nú gögn um mánaðarlegan vöru- og þjónustujöfnuð á þriðja ársfjórðungi 2025. Í september 2025 er áætlað verðmæti útflutnings vegna vöru- og þjónustuviðskipta 171,8 milljarðar króna en áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 179,4 milljarðar. Fyrir vikið er gert ráð fyrir því að vöru- og þjónustujöfnuður í september 2025 hafi verið neikvæður um 7,6 milljarða króna.

Endurskoðun á áður birtum tölum
Við vinnslu niðurstaðna fyrir þriðja ársfjórðung kom í ljós misræmi í stjórnsýslugögnum sem liggja til grundvallar útreikningi vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd. Frekari skoðun, byggð á samtali við mikilvæg útflutningsfyrirtæki, leiddi í ljós að endurskoða þyrfti áður birtar tölur um vöru- og þjónustuútflutning aftur til ársins 2023. Þessi endurskoðun hefur helst áhrif á vöruviðskipti með þeim hætti að útflutningur vöruviðskipta í greiðslujöfnuði dregst saman um 6 milljarða á árinu 2023, um 3,8 milljarða á árinu 2024 en eykst um 11,2 milljarða á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2025. Að sama skapi eykst innflutningur þjónustu um 1,7 milljarða króna fyrir árið 2023, um 5,5 milljarða árið 2024, en dregst saman um 4,1 milljarð á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2025. Útflutningur þjónustu dregst einnig saman um 9,1 milljarð á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2025 við þessa endurskoðun.

*Samkvæmt stöðlum greiðslujafnaðar og þjóðhagsreikninga.

Talnaefni
Vöru- og þjónustviðskipti
Þjónustuviðskipti

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.